149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir að lesa úr þeirri tímamótaræðu sem hún valdi til flutnings. Ég stend við hvert einasta orð sem þar stendur. Ég vil segja, í tilefni af orðum hv. þingmanns, að hér er um tvö mál að ræða. Annars vegar það mál að fjalla með víðtækum yfirgripsmiklum og raunsæjum hætti um þá kosti sem eru í boði varðandi fjármögnun á þeim framkvæmdum sem rakið er í þeim gögnum sem liggja fyrir í umræðu um þetta mál að verður að ráðast í áður en langt um líður.

Síðan er annað mál. Það er það að, svo að ég noti eigið orðalag, að leysa fólk úr þessari manngerðu fátæktargildru. Það er annað mál. Ég ætla að leyfa mér að nota þetta tækifæri og vísa hér í eigin málatilbúnað í því efni. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að tekjur undir 300.000 kr. verði ekki skattlagðar. Sú þingsályktunartillaga er studd þeim rökum m.a. að slíkar tekjur dugi ekki til framfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf kynnt og lesa má á vefsíðu velferðarráðuneytisins.

Ég leyfi mér að vonast eftir því að sú þingsályktunartillaga fái þann stuðning hér í þinginu sem hún verðskuldar. Ég get kannski komið aðeins nánar að því hér á eftir, því að tími minn er á þrotum.