149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum ekki tíma til þess að ræða aðrar þingsályktunartillögur en þær sem við fjöllum um í dag og eru á dagskrá, sem er þingsályktunartillaga um samgöngumál til fimm og 15 ára. Þar er verið að leggja til sérstaka gjaldheimtu á allan almenning, óháð efnahag. Þetta ætti þingmaðurinn að vita, enda hagfræðimenntaður. Sú sem hér stendur er bara leikkona og lögmaður og er því ekki með jafn víðtækan bakgrunn og þingmaðurinn, þegar kemur að hagfræðilegum snúningum. Ég skil það þó að sá sem hefur ekkert aukreitis til ráðstöfunar mun trauðla getað borgað, segjum 1.000 kr. á dag fram og til baka, til að komast í vinnu eða í skóla ef viðkomandi býr utan þéttasta parts höfuðborgarsvæðisins. En það er þetta sem við erum að horfa á, að meðalgjaldið geti orðið um 400 kr., t.d. frá Reykjavík austur í Hveragerði, og sama þegar um Suðurnes er að ræða. Þingmaðurinn ætti að vita að þetta mun bitna harðast á þeim sem hafa engar krónur aukreitis.

Það vekur því furðu mína að þingmaðurinn sem áður, á meðan hann var í Flokki fólksins, talaði gjarnan fyrir þá sem hafa það hvað verst, þá sem eiga ekkert aukreitis — talaði gjarnan fallega um þá sem við ættum að vera að efla og passa upp á — skuli í dag styðja álögur sem bitna harðast á þeim sem lökust hafa kjörin. Það er þetta sem ég fæ ekki alveg skilið. Áður var (Forseti hringir.) greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu gagnrýnd harðlega og (Forseti hringir.) talað um að afnema virðisaukaskatt á lyf þeirra sem eru langveikir.