149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óþarfi að leggja fólki orð í munn í þessu máli. Ég lagði í ræðu minni áherslu á þann fyrirvara sem minn góði félagi utan flokka, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, gerði um veggjöldin og ég hafði í ræðu minni fyrirvara um veggjöldin.

Menn mega treysta því að ég hef ekki látið af baráttu í þágu þeirra Íslendinga sem lökust hafa kjörin. Það er ekki úr vegi, herra forseti, fyrst rætt er sérstaklega um þá sem lökust hafa kjörin, þegar verið er að tala um fjármögnunarkosti sem fyrir eru, að vísa til hinnar umfangsmiklu tillögu sem ég hef lagt fram í félagi við aðra hv. þingmenn.

Ég ætla að leyfa mér að bæta því við sem ég sagði áður um þá tillögu, að hún er ekki bara studd þeim sjónarmiðum sem ég gat um, að tekjur af þessu tagi liggi undir framfærsluviðmiðum eins og þau eru kynnt af hálfu stjórnvalda sjálfra, heldur er í greinargerð borinn saman kostnaður af þessari tillögu og tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem nú ber ábyrgð á ríkisfjármálunum, með sinn formann sem fjármálaráðherra. Niðurstaðan af þeim samanburði er sú að tillaga Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna 2017 er um það að lækka neðra þrep tekjuskattsins um 2 prósentustig, niður í 35%, en þessi tillaga sem ég er að fjalla um fjallar um tilflutning innan kerfisins til þess sérstaklega að rétta hlut þeirra sem lökust hafa kjörin. Samt kostar sú tillaga, sem ég er ábyrgur fyrir hér og hef lagt fram, (Forseti hringir.) ekki nema nokkru meira — vissulega, að sönnu meira, en kostnaðurinn er minni en ætla mætti.