149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar fróðlega yfirferð yfir flugmálin eins og hans er von og vísa. Ég ætla ekki að hætta mér of langt út í þau samt en það voru ákveðnir kaflar í upphafi ræðu þingmanns sem vöktu athygli mína, sérstaklega orðin um svelta samgönguáætlun á undanförnum árum og í rauninni þá samgönguáætlun sem við fjöllum núna um. Eins og oftar en ekki hefur komið fram í þessari umræðu vantar fjármagn fyrir þessar brýnu framkvæmdir, nauðsynlegu framkvæmdir vegna umferðaröryggis og umferðarþunga og annars. Þær eru ekki fjármagnaðar og þarf að leita aukafjármagns fyrir þær. Það er einmitt þrátt fyrir þá stórsókn sem átti að vera í samgöngumálum sem er eftir sem áður, eftir stórsóknarviðbótina, þessa 5,5 milljarða, undir meðaltali framlaga til samgöngumála á þessari öld. Stórsóknin verður hins vegar greidd með tímabundinni skattahækkun. Það hefur oft komið fram líka og kom fram í sérstökum umræðum á fyrri þingum, t.d. 2011 í sérstakri umræðu sem Jón Gunnarsson var með um svipað mál.

Þessa skattheimtu, veggjöld, sóru allir flokkar af sér fyrir kosningar. Ég legg til að fólk hlusti á ræðu hv. þm. Smára McCarthys á eftir til að fylgjast með því.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvað er lögð til mikil aukaskattlagning á hverju ári til að fjármagna það sem vantar upp á í rauninni til þess að samgönguáætlun sé eins og fólkið á skilið?