149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er mér alvöruverkefni á höndum, að reyna að svara svona spurningu á tveimur mínútum. 800–1.000 milljónir? Þú gerir ekki mikið fyrir það til að sinna öllu sem þarf vítt og breitt um landið. Það er nú hálfgerður brandari ef menn halda það raunverulega að þeir geti á nokkrum árum með 800 milljónum á ári komið til móts við allt sem þarf að gerast til að veita aðgengi að þjónustu eins og er á höfuðborgarsvæðinu og öllu þessu umhverfi. Það er oft talað eins og menn geti bara byggt upp sjúkrahús með alla þjónustu vítt og breitt um landið og haldið að þau geti tekið við öllu. Málið er það að í íslensku heilbrigðiskerfi og á Landspítalanum fer sirka 10% af rekstri Landspítalans sem sinnir öllu landinu, í að sinna erfiðustu tilfellunum, hvort sem það er vegna fyrirbura, hjartaaðgerða eða tauga- og heilaskurðlækninga. Alvarlegustu áverkarnir enda allir hér.

Það er svo margt sem er hægt að ræða, en maður fær svo ótrúlega stuttan tíma. Ríkið borgar líklega milljarð í Hörpu á ári. Hefur hv. þingmaður hugleitt það í samhengi hlutanna? (Gripið fram í.) Til að setja þetta í samhengi. Við erum með eitt hús hérna við höfnina þar sem ríkið borgar um það bil sömu upphæð og við erum að tala um í þessu dæmi. Það má líka taka fram í þessari umræðu að landsbyggðin vítt og breitt borgar sirka 2 krónur til Reykjavíkur og fær eina til baka. Þetta er búið að skoða. (Gripið fram í.) Já.

Þetta er bara mjög eðlileg krafa þeirra 60.000 einstaklinga sem búa á landsbyggðinni í dag, ef við tökum svæðið frá Hvítá til Hvítár. Þetta er ekki meiri fjöldi en það. Að þeir hafi sem best aðgengi að þeirri þjónustu sem er sköpuð fyrir allt þetta land hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég las Skúla fógeta um jólin. Það væri áhugavert fyrir hv. þingmanni að skoða þá bók þar sem við sjáum að þar leggja menn grunninn að því og í framhaldi af því árin á eftir að taka allt til Reykjavíkur og Reykjavík verður raunverulega til. Það er bara ákvörðun sem var tekin fyrir 200 eða 250 árum um hvernig ætti að standa að málum. (Forseti hringir.) Þetta viljum við jafna aðeins með þessari aðferð.