149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum í gær og í dag verið að ræða samgönguáætlanir í þingsal, annars vegar til fimm ára og hins vegar samhliða til 15 ára. Í samgönguáætlun felast mikilvæg áform, áform sem að þessu sinni og í orði kveðnu eru fullfjármögnuð, a.m.k. skemmri áætlunin, en ýmislegt er þó eitthvað lausara í reipunum þegar fram í sækir og er jafnvel einhverju vísað inn í hina óræðu framtíð.

Reyndar hefur ekki öllum stundum verið gott að henda reiður á staðreyndum í þessari umræðu; hvað eru væntingar, hvað eru óskir, hvað eru langanir, hvað eru hreinir draumórar og hvað er blákalt óraunsæi. Hugurinn hefur skoppað víða, eins og Þórbergur kvað forðum, en allt ber þó að einum og sama brunni. Þörfin fyrir stórfelldar úrbætur varðandi þá málaflokka sem heyra undir samgöngur er mikil og þörfin er bráð. Við erum þrátt fyrir allt sammála um að innviðir okkar hrópi á úrbætur og séu langsveltir í miklum mæli, svari þeir ekki kalli og kröfum tímanna, stóraukinni og breyttri notkun og að ekki sé valkostur að bíða og sjá til.

Umræðan um málið í þinginu finnst mér því hafa verið dálítið ómarkviss á köflum, einhvern veginn út um allt og erfitt á stundum að halda einbeitingunni. Mér finnst þó að það sé býsna mikil efnisleg samstaða um innihald og forgangsröðun í þeim tillögum sem hér liggja fyrir og eru til umræðu þótt á einstaka stað séu átök um mikilvægi verkefna. Aðdragandi umræðunnar, uppleggið, er þannig að ýmislegt dreifir huganum. Eina stundina er rætt um stórátak í innviðauppbyggingu, þjóðarsátt, að efla þurfi öryggi vegfarenda með öllum ráðum, að slys séu allt of tíð — og það er sannarlega satt — að þetta eigi að gera sameiginlega og nota fé úr sjóðum okkar allra. Hina stundina er svo rætt af miklum tilfinningaþunga um að til þess að gera þetta allt hratt og vel þurfi að skattleggja vegfarendur sérstaklega. Veggjöld hér og veggjöld þar, annaðhvort alls staðar eða sums staðar, úti um landið allt og jafnvel innan bæja og borgar.

Látum það liggja á milli hluta í bili. Við þurfum og munum ræða þetta innan fárra mánaða á ný, m.a. breyttar leiðir til að fjármagna umferðarmannvirki. Um þetta atriði og þessi atriði öll þurfum við að ná raunhæfri sátt en ekki með því að leggja ofurkapp á að þrýsta í gegn einhverjum illa upplýstum og að því er virðist íþyngjandi ákvæðum í átakafarvegi. Það er engin ástæða til að gefa sér harða andstöðu við breytingar á gjaldtöku í umferðinni, en er ekki rétt að gera það á skynsamlegan og yfirvegaðan hátt, velta fyrir sér margvíslegum valkostum og kalla eftir reynslu annarra þjóða sem hafa hana? Við fáum t.d. fréttir af því hjá frændþjóð okkar, Norðmönnum, að í Noregi gæti nú æ minna umburðarlyndis gagnvart veggjöldum, vegtollum og að stórir hópar rísi nú upp til að andæfa stöðugt vaxandi gjaldtöku á þessu sviði. Sömuleiðis að Svíar velti fyrir sér að annarri og samræmdri gjaldtöku. Tökum okkur sæmilegan tíma í þessa umræðu og yfirvegum og veljum skynsamlegar leiðir, bæði þá sem er efnahagslega hagkvæm, tæknilega viðráðanleg og sem sæmileg sátt ríkir um.

Frú forseti. Sem landsbyggðarþingmann langar mig að drepa niður fæti í mínu víðfeðma Norðvesturkjördæmi, sem er vitaskuld langfallegasta kjördæmi landsins, (Gripið fram í: Uuuu … ) segi ég, [Hlátur í þingsal.] og það segja líka menn sem ég treysti vel. [Hlátur í þingsal.] Þangað til annað sannast fullyrði ég það. (Gripið fram í.)

Okkur verður ósjálfrátt tíðrætt um einn þátt samgöngumála sem er vegakerfið, en samgönguáætlun fjallar auðvitað um fleiri þætti; flugið, hafnirnar, gangandi vegfarendur og hjólandi vegfarendur, svo dæmi séu tekin. Á það hafa þingmenn bent í ræðum sínum.

Mig langar að fjalla örlítið um markmið samgönguáætlunar um jákvæða byggðaþróun. Það eru atriði sem skilgreind eru í fimm liðum. Í fyrsta lagi að við sóknaráætlanir landshluta verði við forgangsröðun framkvæmda tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja vinnusóknarsvæði og landið allt. Hér með er undirstrikað að samgönguáætlun, þótt á stökum og afmörkuðum svæðum sé, er ekki einkamál viðkomandi svæða heldur er þetta hagsmunaatriði fyrir alla landsmenn.

Í öðru lagi að samgöngur styrki búsetugæði svo sem frekast er unnt í öllum landshlutum.

Í þriðja lagi er rætt um markmiðið að leitast verði við að stytta ferðatíma með uppbyggingu vega með bundnu slitlagi og gerð jarðganga til að leysa af hólmi erfiða fjallvegi og styrkja og stækka þannig vinnusóknarsvæði.

Í fjórða lagi er markmið um að sköpuð verði sameiginleg framtíðarsýn fyrir alla landshluta og landið allt með samþættingu samgönguáætlunar við aðra áætlanagerð og opinbera stefnumótun til að efla atvinnulíf og lífsgæði og hámarka hagkvæma nýtingu á samgöngumannvirkjum, þjónustu og fjárfestingum. Þessa hefur nú verið freistað í nýlegri byggðaáætlun.

Í fimmta og síðasta lagi, að unnið verði að opnun fleiri gátta til og frá landinu. Þá er kannski átt við loftið fyrst og fremst og e.t.v. hafnirnar líka.

Þetta eru fín markmið, frú forseti. Þeim getum við náð og enginn í þingsal efast um að fullur vilji er til þess. Okkur greinir í einhverjum atriðum á um leiðir, ekki vegaleiðir eða sjóleiðir, heldur leiðir um fjármögnun. Til að þetta gangi upp þarf sameinað átak þings og landsmanna og við þurfum að vera sammála í meginatriðum. Til þess þurfum við umræðuna, sem tekur sinn tíma, og við erum nú í henni miðri. Við getum ekki beðið framkvæmda, þær þurfa að hefjast án tafar og hefðu þurft að vera í gangi í ríkari mæli en nú er.

Frú forseti. Þeim sem búa á Vesturlandi brá sannast sagna í brún þegar fregnir bárust af því á dögunum að fyrir dyrum stæði að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum á Kjalarnesi, en þessi vegur er einn af fjölförnustu vegum á Íslandi. Um hann aka að meðaltali 7.000 bílar á dag og enn fleiri á sumrin, um 14.000 bílar á sólarhring. Vegurinn hefur setið eftir í vegabótum undanfarin ár og nú er svo komið að ástandið er orðið ískyggilegt. Það er stórhættulegt að aka um þetta svæði, það þekkja þeir sem keyra þetta daglega. Vegurinn er auk þess ein af stofnæðum frá Reykjavík sem ekki hefur verið breikkuð. Það hefði því verið með ólíkindum ef komið hefði til frestunar á þessari stóru og mikilvægu framkvæmd.

Að þurfa stöðugt að verjast er algerlega óboðlegt fyrir Vestlendinga og ekki bara Vestlendinga heldur alla landsmenn af því að þetta er þjóðbraut. Vestlendingar hafa barist fyrir því um áraraðir að ráðist verði í úrbætur á á þessum vegi sem hefur kostað bæði mörg slys og því miður hörmulega mörg mannslíf.

Hv. starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar tilkynnti í gær að þessu hefði verið snúið við og að framkvæmdir færu í gang og að ekki yrðu tafir á framkvæmdum að nokkru marki.

Frú forseti. Ég fikra mig áfram eftir þessu fallega kjördæmi og hvar nem ég staðar annars staðar en á Akranesi, einum allra fegursta bæ landsins. Þar hefur verið starfandi stór og mikil verksmiðja, Sementsverksmiðja ríkisins. Akranesbær hefur fengið þessa verksmiðju til umráða. Búið er að rífa verksmiðjuna og á þeirri lóð á að rísa blómleg byggð við sjávarströndina. Hins vegar náðust ekki samningar um kostnað vegna niðurrifs. Nú hefur tekist að semja við Vegagerðina og þetta er komið inn á samgönguáætlun sem er gleðiefni og á að fagna því. Það þarf að lyfta brautinni við Faxabraut því að menn gera ráð fyrir hækkandi sjávarborði og gengur sjór yfir landið eins og nú háttar til.

Svo við höldum áfram vestur og norður um er líka sérstakt ánægjuefni að það hillir undir lok framkvæmda á Fróðárheiði á Snæfellsnesi. Það er framkvæmd sem staðið hefur yfir í á annan áratug. Samgönguáætlun Vesturlands hefur verið samin í nokkur ár og þessi tvö verkefni, Kjalarnes og Fróðárheiði, hafa verið forgangsverkefni sveitarstjórnarmanna. Það er ánægjulegt að það er slagkraftur í samgönguáætlunum landshlutasamtakanna. Það sem veldur hins vegar miklum vonbrigðum er að einungis er áætlað að verja 550 milljónum til almennra nýframkvæmda við vegi á Vesturlandi á næstu fimm árum, mun lægri upphæð en í nokkrum öðrum landshluta. Það er með öllu óskiljanlegt og erfitt að una við það. Á Vesturlandi eru um 14% af vegakerfi landsins og eru þar um 60% vega án slitlags. Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi eru í hópi þeirra tíu sveitarfélaga á landsvísu þar sem fæstir vegir eru lagðir bundnu slitlagi. Þetta eru Skorradalshreppur, Dalabyggð og Borgarbyggð. Tæplega 10% af vegakerfi landsins eru í þessum þremur sveitarfélögum.

Á Norðurlandi vestra eru um 13% stofn- og tengivegakerfisins í landinu. Fjármunir til nýbygginga þeirra hafa verið innan við 0,3% af heildarframlögum til málaflokksins. Samt er hlutfall vega með bundið slitlag hvergi lægra en í þessum landshlutum, um 29%. Umferð um svæðið er mikil, þarna er blómleg byggð og þarna er öflugur landbúnaður, eitt alöflugasta sauðfjárbúskaparsvæði landsins.

Vegurinn um Skógarströnd, sem einhverjir hafa kannski farið um, hefur mikla þýðingu fyrir íbúa á Snæfellsnesi og í Dalabyggð sem um áratugaskeið hafa búið við laka malarvegi. Víða á svæðinu er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta sem vex hratt. Með bættum samgöngum skapast ýmis tækifæri varðandi samstarf þessara nágrannabyggðarlaga, auk þess sem Dalabyggð myndi eflaust njóta góðs af gríðarlegum fjölda ferðamanna sem leggur leið sína um Snæfellsnes. Eins og nú háttar til eru ferðamenn á ferðinni akandi sjálfir og jafnvel um Skógarstrandarveg sumar sem vetur og lenda oft í kröppum veðrum og í vandræðum. Þarna þarf að halda vel á spöðunum og hnika framkvæmdum framar en fyrirhugað er í áætlun.

Það eru sömuleiðis mikil vonbrigði hversu fá verkefni eru samkvæmt báðum áætlunum á dagskrá á Norðurlandi vestra. Aðeins er eitt verkefni sem telst til nýframkvæmda. Það er Skagastrandarvegur, sem settur er á dagskrá síðari hluta áætlunarinnar áranna 2019–2023, en þar þarf auðvitað að hefjast handa sem allra fyrst. Skagastrandarvegur hefur lengi verið baráttumál landshlutans. Núverandi vegurinn er mjór og hlykkjóttur og á honum eru margar blindhæðir og hann er erfiður um vetur. Skagastrandarvegur tengir saman vinnusóknarsvæði sem nær frá Blönduósi og Skagaströnd að Sauðárkróki og hefur styrkt byggð í landshlutanum. Auk þess sækja mörg ungmenni frá öllu Norðurlandi vestra menntun til Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og fara þau því þennan veg, sum daglega, önnur vikulega. Þar á ofan hefur samstarf aukist verulega innan þessa svæðis á mörgum sviðum frá því að vegurinn yfir Þverárfjall var endurbyggður. Á Norðurlandi vestra hafa vegabætur á Vatnsnesi ratað í umræðuna og ástandið á veginum um Vatnsnes. Þetta atriði hefur verið í hæstri forgangsröðun heimamanna og er gott að náðst hafa samningar um að hefja þar framkvæmdir á næstunni í tengslum við breytingar á vegstæði og nýja brú yfir Tjarnará.

Víða í Sveitarfélaginu Skagafirði má finna vegi sem beinlínis eru hættulegir yfirferðar vegna þess að ekki hefur fengist fé til viðhalds. Í fimm ára samgönguáætlun er þó ekki gert ráð fyrir neinum beinum framlögum til uppbyggingar malarvega með bundnu slitlagi í sveitarfélaginu og engar vegaframkvæmdir eru heldur á svæðinu í kaflanum um undirbúning verka utan áætlunar. Það er ekki ásættanlegt. En heimamenn sofa þó ekki á verðinum, þeir eru stórhuga og framsýnir. Þeir hafa verið ólatir við að vekja athygli á hagsmunum svæðisins í samgöngumálum og hafa nú hreyft áformum um að hafin verði um rannsókn á hagkvæmni þess að grafa jarðgöng í gegnum Tröllaskaga og að gerð verði rannsókn á samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar gangagerðar.

Sá þáttur byggðastefnu að efla Akureyri virðist eiga vaxandi fylgi bæði hjá stjórnvöldum og almenningi og tillaga um veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar er til þess fallin að styrkja þennan þátt og ber vott um vilja Skagfirðinga til að laga sig að ríkjandi byggðastefnu. Heimamenn telja reyndar að veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar séu ekkert sérstakt hagsmunamál Skagfirðinga heldur auðvitað hagsmunamál á landsvísu.

Örlítið um flugvelli landsins sem eru hluti af samgönguneti okkar. Þeim er skipt upp eftir því hvort þeir tilheyra grunnneti flugvalla. Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki er eini flugvöllurinn á Norðvesturlandi sem tilheyrir grunnnetinu. Það er mikilvægt að völlurinn geri það áfram og að honum verði tryggðir nægjanlegir rekstrarfjármunir til að unnt sé að koma á reglulegu áætlunarflugi. Einnig að völlurinn geti verið tiltækur til sjúkraflugs hvenær sem er, en það er engin vissa um það en meðan á óvissu stendur er rétt að benda á möguleika vallarins sem æfinga- og þjálfunarflugvallar fyrir flugnema því að aðstaðan er þar prýðisgóð. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir drap á það í ágætri ræðu sinni í gærkvöldi hversu mikilvægt væri að við tryggðum að við menntuðum góða flugmenn og þjálfuðum þá við allar mögulegar aðstæður.

Það er þróttmikil byggð í Skagafirði og útgerð í blóma. Landaður afli á Sauðárkróki er um 25.000 tonn á ári og um hafnirnar fara um 50.000 tonn á ári í inn- og útflutningi. En það þarf að bæta höfnina á Sauðárkróki því að þeir ætla sér stóra hluti. Þeir vilja taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum og strandferðaflutningar eru talsverðir.

Það eru verkefni víðar við sjávarsíðuna. Endurgera þarf þann hluta norðurgarðs t.d. á Hofsósi. Hafnarbætur í Snæfellsbæ og á Arnarstapa eru sömuleiðis á döfinni, en Arnarstapi er mikilvæg smábátahöfn.

Ísafjarðarhöfn er barn síns tíma og þar er gríðarleg umferð skemmtiferðaskipa, auk uppbyggingar athafnasvæðis við höfnina, sem kallar á stækkun. Við vitum að Hafnabótasjóður hefur verið sveltur um árabil og þar er mikil og uppsöfnuð viðhaldsþörf. Nýframkvæmdir hafa verið í lágmarki og því er erfitt að mæta þörfum nýrra og arðbærra atvinnutækifæra. Ég nefni fiskeldi og ég nefni skemmtiferðaskipin, kalkþörungavinnslu, að ógleymdum drögum eða hugmyndum um rafvæðingu hafnanna.

Fyrir vestan bíða menn Dýrafjarðarganga með eftirvæntingu. Ef það verður raunin að vegagerð á Dynjandisheiði frestist og að sama skapi á Bíldudalsvegi í Arnarfirði er það fráleit tilhugsun. Það er algjörlega úr takti við opnun Dýrafjarðarganga og uppbyggingu nýrra atvinnugreina á svæðinu. Við trúum því ekki fyrr en við tökum á því að þetta mál verði ekki leyst í samfellu.

Vonandi hillir undir framkvæmdir í Gufudalssveit á Vestfjarðavegi 60, en úrbætur munu hafa áhrif bæði á mannlíf og atvinnusköpun á stóru svæði. Það breytir miklu, ekki síst fyrir ferðaþjónustu.

Frú forseti. Að fara um vegi á Vestfjörðum er ferðalag til fortíðar. Víða eru þröngir vegir, holóttir malarvegir og einbreiðir slitlagsvegir sem og einbreiðar brýr. Í samgönguáætlun eru engar sértækar aðgerðir fyrirhugaðar til að fækka þeim 60 einbreiðu brúm sem finna má á Vestfjörðum. Á Ísafirði má finna flugvöll sem er einhver sá sögulegasti og hættulegasti í veröldinni og fyrir liggur þingsályktunartillaga um að við förum að velja og huga að nýjum flugvelli.

Aðeins um almenningssamgöngur í lokin. Brýnt er að unnið sé að því markmiði að efla almenningssamgöngur til að samgöngur verði umhverfislega sjálfbærar. Að sama skapi getur efling almenningssamgangna haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun hvar sem er á landinu, (Forseti hringir.) stækkað vinnusóknarsvæði og bætt aðgengi að þjónustu. Það á við um Vestlendinga sem aðra að þeir sækja t.d. atvinnu og nám til Reykjavíkur (Forseti hringir.) og aka daglega um Kjalarnes, sem þarf að bæta eins og áður hefur verið rætt um.

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég hef nú farið með hraði um nokkur atriði samgönguáætlunar, ég hef boðið upp á skyndikynni af aðstæðum í hinu rismikla Norðvesturkjördæmi. Þar eru mörg knýjandi verk að vinna í samgöngumálum.

(Forseti (ÞórE): Forseti biður hv. þingmenn góðfúslega um að virða ræðutímann.)