149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ljómandi góða ræðu og góða yfirferð yfir Vesturland og Norðvesturkjördæmi þar sem að sjálfsögðu er fallegt eins og svo víða á Íslandi. Það er nú það svæði sem nýtur hæstra framlaga í þessari samgönguáætlun að þessu sinni. Það hefur ekki alltaf verið svo. Það eru mörg brýn verkefni sem eru að koma til framkvæmda.

Ég vil sérstaklega hrósa hv. þingmanni fyrir að ræða um samgöngukerfið sem eina heild. Það er auðvitað lykilatriði í allri okkar nálgun. Það er líka mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á, að sækja fyrirmyndir um gjaldtöku í vegakerfinu til nágrannalanda. Það hefur komið fram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að það er einmitt það sem vinnuhópur sveitarstjórnar- og samgönguráðherra er að gera þessa dagana. Það hafa komið gestir, m.a. frá Noregi, til þess að fara yfir reynsluna þaðan þannig að við getum nýtt okkur þá reynslu. Hv. þingmaður nefndi líka Svíþjóð. Mig langaði að vita hvort hann þekkti til víðar í Evrópu. Það hefur komið fram að það er mjög víða í Evrópu sem verið er að nota veggjöld og mig langar að spyrja hvort hann þekki til hvar reynslan hefur verið best.

Auk þess langar mig að spyrja um hvaða vegir það eru sem þingmaðurinn telur að hafi áhrif á alla landsmenn frá degi til dags. Hvaða leiðir eru það sem alla daga fara um flutningar til og frá landsbyggðinni, ferðamenn sem koma eða fara út á land, auk þess sem íbúar landsins þurfa að fara þar um?