149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni andsvarið. Það hafa verið gerðar miklar umbætur í vegamálum mjög víða. Þó að ég sé nú ungur maður þá man ég eftir því að maður var að skrölta vestur á Ísafjörð á malarvegum stóran hluta Ísafjarðardjúps. Þetta er gjörbreytt. Það er alveg frábært. En það sem hefur gerst í seinni tíð er vaxandi þungi á vegunum. Nú eru allir fiskflutningar komnir á vegina og vöruflutningar í auknum mæli. Markaðurinn og viðskiptalífið krefst þess að fá vörur skjótt afhentar og menn vilja ekki liggja með miklar birgðir úti á landi. Þess vegna reiða menn sig á skjóta flutninga á landi og það hefur komið í ljós að vegirnir þola ekki þessa gríðarlegu umferð.