149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ræðuna. Það er kafli í álitinu sem heitir Ýmsir vegir á vegáætlun og þar stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn [leggur] til að svigrúm sem myndast í samgönguáætlun næstu ára með fjármögnun stórra framkvæmda með veggjöldum verði m.a. notað til að auka heildarframlög til tengivega og styrkvega.“

Síðan segir:

„Þeirra á meðal má helst nefna Skógarstrandarveg, Laxárdalsveg, Vatnsnesveg, Jökuldalsveg, Gilsá–Arnórsstaðamúla, breytta legu vegar við Hrafnagil í Eyjafirði, Garðskagaveg, Garður–Sandgerði, Þingvallaveg, Skógarhóla, veg um Borgarnes og Innstrandaveg.“ — og svo er talað um Árneshrepp á Ströndum.

Þarna eru margir vegir á Norðvesturlandi. — Ég vona að hv. þingmaður hafi heyrt það sem ég sagði. En hvað um það, þarna er verið að sýna fram á hvað gerist þegar veggjöld eru tekin upp og framkvæmdum flýtt á þessu 15 ára tímabili þannig að það losnar um fé í þessa vegi sem hv. þingmaður var einmitt að nefna, sem eru slæmir eða ófullkomnir, í misjöfnu ástandi.

Ég vil enn fremur bæta við að einnig er verið að flýta veginum milli Reykjavíkur og Borgarness um fimm til tíu ár gegn hóflegu veggjaldi sem er metið af stærðargráðunni 200–300 kr. annan legginn.

Ég vil gjarnan fá hreint út hvað þingmanninum finnst um þessa hugmynd yfir höfuð og hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að fjármagna þessa vegi sem ég var að telja upp, sem voru 10 eða 12, með öðrum hætti en að gera þetta svona. Þetta er auðveld lausn. Þetta er sama lausnin og var notuð til að leggja Keflavíkurveginn upp á nýtt og ekki eru neinar deilur um það í samfélaginu nú.