149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:23]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sé farsælt að reyna að vera ekki mjög forstokkaður og mála ekki skrattann á vegginn fyrir fram, skoða allar hliðar mála vel. Eitt vitum við, við þurfum að setja meira fé í umferðarmannvirki. Tímarnir krefjast þess. Umferðin krefst þess. Það held ég að sé óumdeilt.

Hvað varðar þessa vegi og það sem við erum að ræða um og óráðstafað fé, þetta svigrúm sem hv. þingmaður nefndi, t.d. til að koma til móts við erfiðleikana úti á landi þá er það væntanlega það fé sem á að innheimta með veggjöldum í Reykjavík fyrir viðskiptavini.

Ég tel að við verðum að taka þessa umræðu vandlega. Það verður sennilega ekki sátt um málin ef á að fara að innheimta fé á einum stað og ráðstafa því á öðrum stað. Við höfum tekið þá umræðu áður; við ræddum það t.d. ítarlega í gær hvernig við gætum séð þetta fyrir okkur með öðrum hætti. En það er ástæðulaust að útiloka það að við förum að innheimta gjöld af umferðarmannvirkjum öðruvísi en við gerum í dag. Ég held að það segi sig sjálft, að við verðum knúin til þess innan örfárra ára að endurskoða það allt saman.