149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er síðasti maðurinn sem telur hv. þingmann forstokkaðan, ég þekki hann af allt öðru. En hvað um það. Ekki er verið að innheimta veggjöld í Reykjavík og skila fénu út á land. Það er verið að innheimta veggjöld á þremur stofnleiðum. Þeir sem aka Borgarnes/Reykjavík, hvort sem það eru Reykvíkingar eða Borgnesingar sem eru á þeirri leið, greiða veggjöld, ef af verður, og það eru þeir peningar sem eru að fara út á land. Félagslegt réttlæti felst nefnilega líka í því að menn fái eitthvað aðeins meira fyrir sinn snúð, sitt framlag í þjóðarbúið, skulum við segja, en það sem hausafjöldinn segir til um. Þetta er fullkomlega eðlilegt.

Ég vil líka benda á annað: Samkvæmt þeirri kynningu sem við fengum á svokölluðum Óslóarpakka voru 2/3 í Akershus og Ósló sáttir við veggjöld á því stóra svæði í Noregi.