149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Skoska leiðin er áhugaverð, finnst mér. Ég hefði kosið að menn gerðu tilraun á Íslandi varðandi það og mér detta í hug tvö byggðarlög sem eru mjög afskipt, annars vegar Grímsey, sem að vísu er studd að þessu leyti með einhverjum hætti, og Árneshreppur á Ströndum eða flugið til Gjögurs. Það kann að vera að það sé stutt að einhverju leyti líka en það væri áhugavert að vita hvernig það virkaði í þessu samhengi.

Við áttum í Vestnorræna ráðinu fund nú í vor með skoska ráðherranum sem fer með ferðamál, menningu og erlend málefni. Það gafst nú mjög lítið svigrúm til að ræða um skosku leiðina. Það verður að segjast eins og er að hún stóð ekki alveg klár á þessu með skosku leiðina eða þennan stuðning þannig að ég hef svo sem ekki ítarlegar upplýsingar umfram það sem við höfum fengið frá þingi sem hér var haldið fyrir nokkrum misserum.

En þetta er áhugavert efni og það er spurning hvort hægt væri að ramma þetta inn með nægilega sanngjörnum hætti. Það er auðvitað markmiðið.