149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Landshlutasamtökin og atvinnuþróunarfélög vítt og breitt um landið héldu ráðstefnu fyrir að verða einu og hálfu ári síðan í Reykjavík um þessi mál og fengu m.a. þá manneskju sem fyrirlesara sem sér um þessi mál í Skotlandi. Það var ákaflega jákvætt hvernig þessu hefur verið tekið í Skotlandi og pólitíkin í skoska þinginu einróma á bak við hugmyndina, bara svo það sé sagt, það sem kom fram á þeim fundi.

Síðan langar mig kannski að spyrja hv. þingmann, því ég er nú mikill áhugamaður um Sundabraut, eins og margir hér væntanlega, og hefði viljað sjá veg hennar meiri, hún kæmi hratt og vel inn í samgöngukerfi okkar: Eru það ekki vonbrigði núna varðandi Sundabrautina þegar búið er að setja upp lóðir og verið er að byggja á því vegstæði sem var hagstæðast fyrir þá framkvæmd, þar sem á að setja pálmatrén í vegstæðið í staðinn? Eru það ekki vonbrigði fyrir Vesturland og Norðurland hvernig Sundabrautin hefur verið höndluð hérna á höfuðborgarsvæðinu í skipulagsmálum?