149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Samgöngumál eru í molum. Ástæðan er bara vanræksla, enda var einkunnarorðið fyrir síðustu kosningar: Innviðauppbygging, innviðauppbygging, innviðauppbygging. En þegar kemur að því að fjármagna þær vegaframkvæmdir sem þarf að fara í — um það snýst rifrildið í þessu máli. Það eru allir sammála um að það þurfi að fara í vegaframkvæmdir og þjóðin í skoðanakönnun sem Gallup gerir fyrir þingflokk Pírata árlega er klárlega með það mjög ofarlega í sínum forgangi. Munurinn á 2017 og 2018 um það hvernig landsmenn vilja forgangsraða í ríkisfjármálum, hvernig skattar eru teknir inn og gjöld sett út, er að samgöngumálin hafa hoppað upp í annað sæti á eftir heilbrigðiskerfinu; farið úr 29,6 í forgangseinkunn upp í tæplega 39. Fram yfir mennta- og fræðslumál, almannatryggingar og velferðarmál, löggæslu og öryggismál o.s.frv.

Það er alveg ljóst að landsmenn krefjast þess að stjórnvöld forgangsraði í samgöngumál. Og það er það sem við lofuðum. Þá snýst þetta um hvernig eigi að borga fyrir þetta. Það er hægt að forgangsraða í ríkisfjármálunum til að gera þetta. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur bent á að bifreiðaeigendur greiði meira en er síðan sett í að byggja upp vegakerfið. Það væri ein leið, að forgangsraða í ríkisfjármálum. Hefur það verið gert? Nei, það hefur ekki verið gert.

Hverju hafa stjórnarflokkarnir lofað fyrir kosningar? Við vitum það alla vega að þeir flokkar sem samþykktu og afgreiddu þetta mál með veggjöldum, sérstökum veggjöldum á ákveðnar stofnleiðir, út úr nefndinni, sögðu fyrir kosningar, alla vega í Suðurkjördæmi, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, meira að segja formaður flokksins þar, að það ætti ekki að setja á veggjöld. Orðið sem þeir notuðu var veggjöld, en í nefndaráliti meiri hlutans stendur á bls. 5: „Vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku“ á ákveðnum stofnleiðum. Það eru veggjöld. Loforðið á að svíkja af meiri hluta nefndarinnar, stjórnarþingmönnum.

Hvað sögðu stjórnarflokkarnir eftir kosningarnar þegar þeir komu sér saman um stjórnarsáttmála? Hver átti þá að greiða fyrir þessa endurreisn innviðanna, vegaframkvæmdir sérstaklega? Það segir í stjórnarsáttmálanum á bls. 12, um samgöngur og fjarskipti, með leyfi forseta:

„Brýn verkefni blasa við í innviðauppbyggingu um land allt. Þar má nefna verkefni í samgöngum, fjarskiptum, veitukerfum og annarri mannvirkjagerð.“

Samgöngur eru þarna fyrst nefndar. Og hvernig á að fjármagna þetta?

„Svigrúm er á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni og tryggja þannig þá traustu innviði sem eru forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi um land allt.

Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi. Við forgangsröðun í vegamálum verður sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.“

Þetta er það sem átti að gera í samgöngumálum. Fyrstu tvö atriðin sem eru nefnd. Það átti að fjármagna þetta með eignatekjum ríkisins. Það sem ríkið halar inn í eignatekjur, í arðgreiðslur, segir Björn Leví Gunnarsson mér að séu 33 milljarðar. Það væri hægt að forgangsraða þessu samkvæmt stjórnarsáttmálanum ofan á það sem var ákveðið og bæta við 33 milljörðum. Það er svigrúm fyrir það. Það væri hægt að minnka það sem fer í að greiða niður skuldir, en 30 milljarðar eru settir í að greiða niður skuldir.

En hvað segja landsmenn um forgangsröðun í ríkisfjármálum? Hver er munurinn þar á samgöngumálum og niðurgreiðslu skulda? Niðurgreiðsla skulda er svo neðarlega að ég verð að fara eitthvert annað í skjalinu til að skoða það. 12% vilja setja meira í það, það hefur ekkert hreyfst á milli ára, meðan samgöngumál fá 39% tæp í forgang. Landsmenn vilja setja samgöngur í fjórum sinnum meiri forgang en að greiða niður skuldir.

Ríkisstjórnin lofaði í stjórnarsáttmálanum að nota eignatekjur ríkisins í að byggja upp samgöngukerfið. Og hvernig fóru ríkisstjórnarflokkarnir með það loforð? Sjálfstæðisflokkurinn fór með sáttmálann fyrir flokksráð sitt þar sem eru um 200 manns. Þið í flokknum eruð ábyrg gagnvart því með þennan stjórnarsáttmála. Og flokkarnir ykkar, eins og kemur fram í skoðanakönnununum bæði Maskínu og MMR, eru ekki ánægðir. Þar kemur fram að í Sjálfstæðisflokknum eru 52% á móti vegtollum á Íslandi í það heila. Það eru 28% sem eru hlynnt vegtollum eða uppbyggingu þar sem val er um aðrar leiðir en 19% ef ekki er hægt að fara aðra leið. Þannig að nú þurfa þessir í flokksráðinu að svara öðrum kjósendum í Sjálfstæðisflokknum hvers vegna það gengur ekki á ykkur hér varðandi það að brjóta ekki enn frekar kosningaloforðin ykkar og loforð í stjórnarsáttmálanum um hvernig eigi að fjármagna vegauppbyggingu, samgöngur í landinu.

Þegar kemur að Vinstri grænum er þar flokksráð. Þið lögðuð stjórnarsáttmálann fyrir flokksráð ykkar. Hvað segir það við þessu? 55% af ykkar fólki, samkvæmt könnun Maskínu um hvort landsmenn vilji vegtolla, eru á móti vegtollum. Það eru þó 36% hlynnt þeim ef hægt er að fara aðra leið, sem er ekki um að ræða í þessu tilfelli, í tillögunum í nefndarálitinu. Ef það er ekki hægt að fara aðra leið eru bara 8,6% hlynnt þeim.

Þegar kemur að Framsóknarflokknum er það miðstjórnin þar sem eru um 200 manns sem stjórnarsáttmálinn var lagður fyrir og samþykktur, stjórnarsáttmálinn þar sem segir að nota eigi eignatekjur ríkisins í að fjármagna uppbygginguna í vegakerfinu, sá þáttur stjórnarsáttmálans sem er verið að svíkja með þessu nefndaráliti sem kemur út úr umhverfis- og samgöngunefnd. Ég botna bara ekkert í þeim sem þar sitja eins og Ara Trausta Guðbjartssyni sem er í Suðurkjördæmi, sem er það kjördæmi samkvæmt MMR-könnuninni sem er alveg brjálað yfir í að það eigi að fara að setja á vegtolla eins og kemur fram í þessu nefndaráliti sem Ari Trausti Guðbjartsson skrifaði upp á. (Gripið fram í.) Guðmundsson, afsakið. Þar segir að 73% fólks á Suðurlandi og Reykjanesi séu á móti veggjöldum, eins og það er orðað hér. Það eru ekki nema 22% hlynnt því ef það er önnur leið fram hjá, sem er ekki um að ræða í þessu tilfelli.

Þetta eru svæðisbundin gjöld sem er verið að setja á, gjöld sem eru sett sérstaklega á fólk sem býr á Reykjanesi, býr á Suðurlandi, nálægt Reykjavík og keyrir þar af leiðandi oft þar í gegn, í Hveragerði, á Selfossi og Akranesi. Þetta eru svæðisbundin gjöld á þetta fólk sérstaklega. Það eru ekki nema 4,5% hlynnt vegtollum á þessu svæði og það eru þrír þingmenn úr Suðurkjördæmi í nefndinni sem allir samþykktu þetta mál, hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, og svo Karl Gauti Hjaltason, hv. fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins.

Hvernig lítur þetta út varðandi jafnræði? Þetta er svæðisbundið gjald, sérstaklega á þetta fólk. Á að setja svæðisbundið gjald sérstaklega á einhverja aðra, í jarðgöngum og svoleiðis? Þá er farið að tala í nefndarálitinu um jafnræði. Á bls. 5 segir, með leyfi forseta:

„Skoðað verði með jafnræði fyrir augum hvort ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir verði fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun; að hluta til með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem verði greidd upp með gjaldtöku. Gjaldtöku verði hætt þegar lán verður greitt upp. Dæmi um framkvæmdir sem fallið gætu í þennan flokk eru hringvegur um Hornafjarðarfljót og Axarvegur.“

Þarna á að taka jafnræðisfókusinn en skella bara gjöldunum á þessar byggðir sem ég nefndi áðan, íbúana sem búa fyrir utan Stór-Reykjavíkursvæðið en vinna mikið til í Reykjavík. Þetta er ekki jafnræði. Þetta er ekki í anda stefnu Vinstri grænna. Í fyrsta lagi er þetta ekki greitt af almennu skattfé, sem bifreiðaeigendur eru þegar búnir að borga eða eitthvað svoleiðis. Nei, það á ekki að gera það. Þetta á ekki að vera prógressíf skattheimta þar sem þeir sem þéna meira og eiga meira borga meira. Það á ekki að gera það þannig, en þannig er einmitt skattstefna Vinstri grænna, alla vega eins og þau tala um hana fyrir kosningar. Það á ekki að gera það þannig. Jafnræðið á ekki að vera þannig að sagt er: Við ætlum að láta fólk borga fyrir að nota. Og það á ekki einu sinni að vera jafnræði þegar kemur að búsetu fólks. Þetta er algjörlega gagnstætt því sem maður les í stefnuskrá Vinstri grænna og þetta er andstætt því sem þau lofuðu.

Hverjir eru mest á móti þessu ef við skoðum þjóðfélagshópa? Þá eru konur meira á móti þessu en karlar. Ég er ekki hissa. Þegar við skoðum tekjur fólks eru það einmitt tekjulægri sem eru meira á móti þessu. Það er eitthvað sem Vinstri grænir, en líka Framsóknarflokkurinn sem vill vera vinstri flokkur þegar kemur að kosningum, ættu að horfa sérstaklega til. Þetta er skattur sem kemur verr við konur, við tekjulága, við ungt fólk, sem er tekjulægra yfir það heila, þá sem eru með grunnskólapróf en ekki háskólapróf. Aftur er það líklega vegna tekna. Kemur verr við þá sem búa einir á heimili og eru margir hverjir einstætt foreldri, og þá sem eru einhleypir, sem eru líka líklegri til þess að vera einstætt foreldri. Þetta eru allir þessir hópar.

Hvernig væri hægt að gera þetta? Það væri hægt að borga þetta með því að forgangsraða í fjárlögum. Það virðist ekki vera að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hafi leyft það en hann heldur um ríkisbudduna. En Vinstri grænir gætu sagt: Við þurfum að standa við þennan stjórnarsáttmála. Þar segir að svigrúm sé á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni, þ.e. innviðauppbyggingu og þar eru samgöngur nefndar fyrst, og, með leyfi forseta, „tryggja þannig þá traustu innviði sem eru forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi um land allt.“

Um þetta gætu Vinstri græn þrýst á og sagt: Það þarf að setja [Kliður í þingsal.] minna í það að borga upp skuldir þegar kemur að eignatekjum ríkisins, arðgreiðslum og slíku, og setja meira í samgöngur. Það stendur hérna. Við eigum að gera það.

En í hvað vilja Sjálfstæðismenn setja peningana? Bjarni Benediktsson með sitt frumvarp vill setja eignatekjur ríkisins, arðgreiðslur af eignum ríkisins, í þjóðarsjóð, þótt það standi í stjórnarsáttmálanum að það eigi að setja þær í innviðauppbyggingu. En hvernig á síðan að fá peningana til að borga fyrir innviðauppbygginguna? Jú, það á að taka lán fyrir því og borga það síðan upp. Það á að greiða niður skuldir ríkisins með eignatekjum ríkisins, arðgreiðslum til ríkisins, og setja peningana í þjóðarsjóð og taka svo annað lán til að borga fyrir framkvæmdir á sérstökum svæðum sem er algert ójafnræði gagnvart þeim sem búa þar.

Þetta er hið versta mál og ég mun gera allt sem ég get gert til þess að stöðva það frumvarp sem kemur fram eftir þessa þingsályktunartillögu og það frumvarp sem á að koma fram núna í mars um útfærslu á þessum veggjöldum, ef sú útfærsla er í þessum anda eða ekki í anda sem landsmenn geta sætt sig við. Það gæti alveg verið að landsmenn sættu sig við einhvers konar veggjöld. Það getur líka verið að það sé hægt að fara í miklu skilvirkari og betri útfærslu. Eins og maður borgar fyrir heita vatnið og þarf að lesa á mælinn öðru hvoru. Maður borgar svo sem maður notar. Það væri hægt að gera það þannig að það sé lesið af mælinum þínum hvað þú ert búinn að keyra. Þú borgar fyrir það. Það væri fullkomið jafnræði, maður borgar fyrir það sem maður notar. Svo væri jafnvel hægt að setja finnsku leiðina inn, fólk borgi mismunandi háar upphæðir eftir tekjum, bæði atvinnutekjum og eignatekjum. Ef maður er sektaður fyrir stöðumælabrot eða umferðarlagabrot eða eitthvað svoleiðis þá borgar maður í samræmi við tekjur.

Ef við viljum jafnræði í þessum málum á landsvísu lesum við af mælum bílanna. Sá sem notar, borgar. Ef við viljum jafnræði eða prógressífa innheimtu á þessum gjöldum þannig að sá sem er með meiri tekjur borgi meira, notum við finnsku leiðina. Þannig væri hægt að gera þetta, jafnvel mögulegt að sleppa finnsku leiðinni og gera bara hitt og vera þá með gjaldtöku á jafnræðisgrundvelli gagnvart landsmönnum, eitthvað sem landsmenn myndu kannski sætta sig við. Það væru samt sem áður svik við stjórnarsáttmálann. En ég mun gera mitt til þess að frumvarpið sem kemur fram í mars muni ekki klárast hér á þingi í ósátt við þjóðina.