149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé þá hættu að við þorum ekki — nei, fyrirgefðu, forseti, ég ætla að byrja aftur. Það fer í taugarnar á mér þegar stjórnmálamenn brigsla öðrum um að skorta kjark ef þeir vilja ekki fylgja þeim. Ég biðst forláts.

Ef við erum ekki tilbúin í að endurskoða samgöngumál okkar frá grunni munum við lenda í gríðarlega miklum vandræðum. Ég sé glugga til að koma borgarlínunni á. Ég fór yfir það í máli mínu að fyrir mér er þetta tækifærið á pólitískum ferli. Að mínu viti skiptir borgarlínan svo miklu máli að það eru trauðla önnur mál sem komast nálægt því að geta bætt líf og hag fólks eins mikið og ef okkur tekst að koma borgarlínunni á. (JÞÓ: Er það þess virði …) Ég bið hv. þingmann að virða það að ég er að reyna að tala. Hann er forseti Alþingis og á að vita að frammíkall er ekki sérstaklega (Gripið fram í.) til hjálpa umræðunni, eins og sést hér þar sem ég missti algerlega þráðinn við frammíkall hv. þingmanns. Ég missti hann svo mikið að ég er ekki viss um að ég finni hann aftur, forseti. Ég vil ítreka það.

Svo erum við að ræða um gjaldtöku og gjöld og skatta og ég veit ekki hvað. Orðaleikur skiptir mig ekki máli í raun. Við höfum núna þannig kerfi að við borgum fyrir notkun, borgum fyrir notkun í gegnum bensín- eða olíugjald. Ég eyði 100 lítrum og þá borga ég meiri en sá sem eyðir 10 lítrum af því að ég nota meira. Þetta er ekki eðlismunur fyrir mér. Við þurfum að finna leiðina vegna þess að það á að vera markmið okkar allra að bensín- og olíugjöld hverfi sem gjaldstofn, af því að við hættum að nota bensín og olíu.