149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum hér að fjalla um samgönguáætlun. Þegar það er gert í þinginu eru það um það bil 70–80% þingheims sem vilja tjá sig um það mál, sem segir okkur hversu mikilvægt þetta er okkur öllum — samgöngur og með hvaða hætti þær eru útbúnar okkur til handa. Ég ætla að fara hratt í gegnum þetta, við erum hér að reyna að ljúka umræðunni og stytta tímann. Líklega eru allflestar skoðanir komnar fram og margir farnir að segja það sama. En auðvitað viljum við hvert og eitt koma sjónarmiðum okkar á framfæri.

Það er ljóst að í samgönguáætlun eru afmarkaðir fjármunir, í kringum 190 milljarðar. Af þeim fara í kringum 160 milljarðar í viðhald og vegaframkvæmdir á næstu fimm árum. Eðli máls samkvæmt taka verkframkvæmdir og framkvæmdahraði mið af því. Mikil orka og mikill tími hefur farið í að ræða aðrar fjármögnunarleiðir í þessu sambandi og ég ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega mikið heldur láta þá umræðu liggja á milli hluta þangað til að við tökum hana fyrir hér. Ég hefði sjálf viljað að við tækjum þá umræðu í haust samhliða samgönguáætlun þannig að fólk sjái ávinninginn, það sem á af að leiða. Það er alltaf svolítið flóknara að taka mál í sundur þegar það á beinlínis að tengjast einhverju öðru.

Ég ætlaði samt að minnast hér á vegaframkvæmdir sem gætu fallið undir aðrar fjármögnunarleiðir en þær hefðbundnu, sem eru Öxi og Fjarðarheiðargöng. Þaðan höfum við beinlínis fengið óskir um að slíkt verði gert. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum líka að hlusta á, þ.e. að það fólk sem býr í hinum dreifðari byggðum þarf hraðari uppbyggingu samgönguframkvæmda en við getum staðið fyrir með því fé sem við höfum. Nú er það svo, eins og kom fram í skýrslu í fyrrahaust, að þó að við legðum allt það sem kemur inn af mörkum myndi það samt ekki duga til til að fylla upp í gatið. Það má ekki gleyma því, þegar verið er að tala um að einungis hluti fjármagnsins fari í vegaframkvæmdir, að það er auðvitað líka annað sem nýtur þeirra fjármuna. Fjármunir fara í heilbrigðisþjónustu, þeir fara til Samgöngustofu, þeir fara til ýmissa eftirlitsaðila o.s.frv. — sem ekki er óeðlilegt.

Það eru margir vegir á vegáætlun og forgangsröðunin sem hér hefur verið lögð fram byggist fyrst og síðast á öryggismálum. Verið er að tala um tengivegi og styrkvegi þar sem verið er að færa til fjármagn. Lagt er til við Vegagerðina að þeir fjármunir verði nýttir í leiðir þar sem íbúar, og þar með talin börn, eiga daglega leið um til vinnu og skóla og svo ferðamannaleiðir inn á hálendi. Einnig er talað um að leggja áherslu á talningu svo að við höfum nánari upplýsingar um fólk sem fer um hina ýmsu vegi sem ekki eru endilega daglega í umræðunni. Talað er um að bæta þurfi þessa talningu í ljósi breyttrar hegðunar ferðamanna. Við þekkjum að umferðarþunginn hefur aukist mjög mikið.

Ég er ánægð með að meiri hlutinn leggi til að framkvæmdum í þágu tveggja jaðarsvæða verði flýtt, Árneshrepps á Ströndum og Langanesbyggðar á norðausturhorninu, með vegi um Veiðileysuháls og svo endurbætur á vegi um Langanesströnd ásamt uppbyggingu um Brekknaheiði. Það er eitt af því sem hefur verið kallað eftir mjög lengi og er gríðarleg þörf fyrir þegar við erum að færa til alls konar þjónustu og þjappa henni. Líka þegar við erum að reyna að gera íbúum kleift að búa þar sem þeir eru.

Þetta tengist að hluta til því, eins og kemur fram í áliti meiri hlutans, að ríkisstjórnin samþykkti í nóvember sl. tillögu um eflingu byggðar við Bakkaflóa. Nefnd hafði fjallað um þessi mál og komið með tillögur þess eðlis. Þar kom m.a. fram að eindregið væri lagt til að ljúka lagningu bundins slitlags á Langanesströnd og að hafist yrði handa á þessu ári. Í framhaldinu verður svo farið í Brekknaheiði. Þetta getur skipt sköpum um að byggð haldist á þessu svæði.

Ég ætla líka að tala um stofnstíga, eins og hér hefur lítillega verið talað um. Síðasti ræðumaður gerði það líka, um hjóla- og göngustíga. Við sjáum gríðarlega breytingu í því og fjöldi fólks er farinn að nýta sér hjólið í vinnu og til sports líka. Ég man ekki hvort það kom fram að mun fleiri hjóla til vinnu en nýta sér strætó, mér fannst það athyglisvert. Nú er verið að gera slíkan stíg frá Akureyri og inn í Eyjafjörð. Það er svæði þar sem banaslys hafa orðið og því mjög mikilvægt að koma hjólreiðafólkinu af veginum þarna fram eftir. Þetta er klárlega eitt af því sem ýtir undir heilbrigðari lífsstíl, ýtir undir vistvænni samgöngur og hjálpar okkur í loftslagsmálum.

Svo er það varðandi almenningssamgöngurnar, þær hafa aðeins verið reifaðar hér. Ég hef miklar áhyggjur almennt af almenningssamgöngum. Ég var í Finnlandi á dögunum og af því að talað var um borgarlínu hugsaði ég með mér, þar sem þeirra borgarlína keyrði um í snjónum: Fyrst Finnar geta gert þetta getum við líklega gert þetta svo að vel sé. En almenningssamgöngur á milli landshluta, frá Akureyri til Reykjavíkur eða frá Ólafsfirði til Egilsstaða eða hvað það nú er — tíminn sem fer í það, tíðni ferða og annað slíkt, er ekki þess eðlis að við getum sagt að það séu alvörualmenningssamgöngur. Það er ekki eðlilegt að vera 10–12 tíma á leið sem á að taka sex eða sjö, að þú sért nánast helmingi lengur. Ég held að við séum flest sammála um það. Úr þessu þurfum við að leysa því að ég tel mjög mikilvægt að við höfum almenningssamgöngur. Ég held að fólk nýti þær þegar þær verða raunverulega þess eðlis að það verður hagkvæmara fyrir mann að fara með almenningssamgöngum en að fara á einkabílnum einn og þegar ferðatíminn er sambærilegur.

Ég vil líka nefna það sem kemur fram um samskipti við sveitarfélög og landshlutafélög þeirra þegar kemur að framkvæmdum. Hér er áréttað að ástandið er ekki nógu gott. Því þarf að finna betri farveg. Vissulega koma fram sjónarmið hjá Vegagerðinni er varða öryggismál og harmónera kannski ekki alveg við það sem landshlutasamtökin vilja gera fyrst, en þetta hlýtur að vera hægt að vigta svolítið saman.

Ég vil nefna umferðaröryggi ungmenna á þessum vegum og unga fólksins sem er að stíga sín fyrstu skref — en líka bara út um allar sveitir þar sem nemendur eru á ferðalagi í skólabílum um mismunandi góða vegi. Þetta er eitthvað sem við eigum að taka til skoðunar og setja í forgang. Það sama vil ég segja með vetrarþjónustuna. Þar sem ég bý á svæði þar sem slíkt er afar mikilvægt þá veit ég að það getur skipt máli. Þegar skera átti niður vetrarþjónustuna á norðaustursvæðinu í hittiðfyrra, minnir mig, reis fólk upp og gat ekki sætt sig við það. En auðvitað vitum við að Vegagerðin hefur ákveðnu fjármagni úr að moða en um þetta þurfum við líka að hugsa þegar við erum að leggja til fjármuni.

Síðan er það flugið. Hér hefur félagi minn, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, farið afskaplega vel yfir flugmálin. Ég ætla bara rétt að segja að ég tel að við eigum að huga vel að þessum flugvöllum, byggja upp flugvellina og innanlandsflugið. Eigendastefna Isavia er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að taka á í því samhengi svo að við getum komið þessum málum í viðunandi farveg þannig að vel sé. Það var líka ágætt að minna á varaflugvellina, sjúkraflugið og allt það sem við þurfum að hafa í lagi. Þá þurfum við líka að hafa Reykjavíkurflugvöll í lagi á meðan ekki er annar kostur í boði. Ég er ánægð að sjá að meiri hlutinn leggur áherslu á að honum verði viðhaldið og hann byggður upp þangað til annað kemur í ljós.

Ég verð að tala um niðurgreiðslu flugfargjalda innanlands og kolefnisspor í kringum hana, sem hefur aðeins verið rætt hér. Það hefur ekki verið hrakið, sem fram kemur hér og talað er um, að það þurfi ríflega 2,7 farþega í meðalfólksbíl. Auðvitað er ekki endilega skilgreint hvers konar bílar eða eitthvað slíkt. Hér var talað um að það væri bara 1% af metan- eða tvinn- eða rafmagnsbílum þannig að það er alveg ljóst að enn er verið að miða við bílaflotann eins og hann er í dag. Þetta er líka eitthvað sem er ekki endilega komið til með að vera um aldur og ævi heldur er þetta eitthvað sem við erum að gera tilraun með til að leiðrétta stöðu þeirra sem fjærst búa, og er gríðarlega mikilvægt. Ég hvet alla þá sem hafa efasemdir um það að kíkja inn á „Dýrt innanlandsflug“ á Facebook og sjá hvað fólk segir þar. Hér er bara verið að tala um fjórar ferðir á ári, það er nú allur obbinn. Þetta er ekki slíkur fjöldi að það setji allt á hliðina. Við eigum að gera þetta ásamt því að byggja upp betri innviði er varða allt annað, hvort sem það er í heilbrigðisþjónustunni eða einhverju slíku.

Virðulegi forseti. Við vorum búin að semja um að tala ekki lengi og ég ætla ekki að fara lengra fram úr því sem mér var ætlað. Ég lýsi ánægju minni með að þessi samgönguáætlun er hér fram komin. Hún er fullfjármögnuð eins og hún var lögð fram í haust með þeim tilfæringum sem hér hafa verið gerðar. Það breytir því ekki að betur má ef duga skal og á því finnum við vonandi lausn þegar vorar eða haustar.