149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Á þessum tímapunkti er búið að ræða samgönguáætlun í þaula og því ætla ég að nota tækifærið til að tala aðeins um það fyrirbæri að skipta um skoðun.

Það er bæði jákvætt og til eftirbreytni að skipta um skoðun en þó er gagnlegt að viss skilyrði séu uppfyllt, til að mynda að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem sýna fram á að fyrri afstaða hafi reynst röng. Það er líka ágætt að fólk hafi ekki verið svo afgerandi í máli sínu fyrir fram að fólk geti reitt sig á að loforð standi. Þetta á sérstaklega við í stjórnmálum þar sem er lykilatriði að kjósendur geti treyst því að það sem sagt er fyrir kosningar verði ekki algerlega á skjön við það sem er gert eftir kosningar. Það er auðvitað alltaf eitthvert svigrúm til að hliðra til og það er nauðsynlegt, en þegar menn segjast afdráttarlaust á móti einhverju er að sjálfsögðu hætt við því að einhver kalli það lygar eða hræsni þegar þeir segjast svo afdráttarlaust fylgjandi því án þess að komið hafi fram nokkuð sem réttlætir slíka kúvendingu.

Frú forseti. Svo að ég tali ekki undir rós er rétt að ég geri grein fyrir því til hvers ég vísa. Þann 24. október 2017 var samtal frambjóðenda til Alþingis í Suðurkjördæmi á Rás 1. Spurt var: Á að leggja á veggjöld til að hrinda þessum framkvæmdum af stað? Fulltrúi VG sagði VG ekki hlynnt veggjöldum en að það þyrfti að byggja upp samgöngukerfið. Þá var sagt að til væri áætlun um hvar ætti að ná í peningana. Þáttastjórnandi spurði þá: Ef einhver er með veggjöldum, rétti hann upp hönd. Ekki nóg með það að enginn rétti upp hönd af þeim fulltrúum tíu flokka sem voru þarna samankomnir heldur benti ég á að undarlegt væri að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins réttu ekki upp hönd í ljósi þess sem hafði verið rætt, m.a. af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fram að því. Þá greip hv. þm. Páll Magnússon orðið og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki talað fyrir veggjöldum. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins að leggja á veggjöld. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessu kjördæmi eru á móti því að lögð verði á veggjöld. Samgönguráðherra sjálfur hefur ekki talað fyrir veggjöldum.“

Hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sagði, með leyfi forseta:

„Við erum á móti veggjöldum. Við ætlum að nota ríkulegan afgang af ríkisfjármálunum, við ætlum að setja 10 milljarða í samgöngumálin.“

Hann talaði um að til væru nægir peningar í þær framkvæmdir, sem er reyndar rétt.

Almennt talaði fólk gegn veggjöldum þá og sumir tala með þeim nú. Því er ástæða til að kjósendur í Suðurkjördæmi spyrji hv. þingmenn sína í meiri hlutanum, Pál Magnússon, Sigurð Inga Jóhannsson, Ásmund Friðriksson, Ara Trausta Guðmundsson, Ásgerði K. Gylfadóttur og Vilhjálm Árnason, hvort þetta sé í samræmi við þau loforð sem voru gefin fyrir kosningar, m.a. í áðurnefndum þætti.

Það má líka spyrja sig hvort eitthvað hafi gerst í millitíðinni sem varð til þess að þau skiptu um skoðun, vegna þess að það er mjög gott að skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar berast sem sýna að maður hafði kannski rangt fyrir sér. Ég hef leitað að einhverjum nýjum upplýsingum sem gætu réttlætt slíka kúvendingu í afstöðu. Ég hef leitað, ég hef hlustað á ræður og ég hef ekki enn þá fundið neinar nýjar upplýsingar sem voru ekki til staðar árið 2017 — og jafnvel mikið lengur — sem geta réttlætt þá kúvendingu.

Það er rétt að fjármagna þarf margar framkvæmdir sem hafa setið á hakanum, þar með talið að klára tvöföldun Reykjanesbrautar sem og breikkun Grindavíkurvegar, klára tvöföldun á Hellisheiðarleiðinni til Selfoss og uppræta einbreiðar brýr alla leið til Hornafjarðar, svo að ég haldi mig við Suðurkjördæmið. Það er náttúrlega líka nóg að gera í öðrum kjördæmum og mjög góð verkefni sem bíða, hvort sem það er borgarlína í Reykjavík eða jarðgöng á Vestfjörðum eða fyrir austan, svo að ekki sé talað um mikilvægi þess að byggja upp aðstöðu fyrir flugið í þágu almannaöryggis fyrst og síðast en líka til að þjónusta betur landsbyggðina.

En almenn veggjöld munu ekki leysa nein vandamál sem eru til staðar á Íslandi. Það er nefnilega rétt sem hæstv. samgönguráðherra sagði 24. október 2017, að afgangur af rekstri ríkissjóðs væri alveg nægur til þess að fara í þær framkvæmdir sem þörf væri á. Jafnvel þótt afgangurinn væri ekki nægur er það staðreynd að sjóðstaða ríkissjóðs og staða hagkerfisins í augnablikinu gefur tilefni til töluverðra fjárfestinga í innviðauppbyggingu. Það er loksins kominn smá slaki í framleiðsluspennuna og eðlilegast væri að ríkið myndi fjárfesta í vegagerð og öðrum framkvæmdum til að nýta þann slaka, frekar en að láta slakann bitna á almenningi í formi lægra atvinnustigs og verri kjara. Það væri eðlilegt. Það væri eðlileg nálgun, að byggja upp hraðar þegar slaki er til staðar, þótt hann sé lítill, jafnvel þótt það kosti örlitla skuldsetningu, vegna þess að það mun borga sig til baka þegar hagkerfið nær sér á fullt flug. Ég er ekki að segja að hagkerfið sé ekki á fullu flugi en örlítill slaki hefur myndast og við eigum að nýta hann.

Athugum að skuldsetning ríkissjóðs er í fyrsta lagi mjög lítil. Hún er minni en skuldir norska ríkisins meira að segja, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Þó gæti ríkissjóður tæknilega séð greitt upp alla skuldina ef það þætti skynsamlegt, en það er ekki skynsamlegt.

Hitt er að í reyndinni er það að eyða peningum af hálfu ríkisins leið til að koma möguleika út í hagkerfið á því að byggja upp. Það er tilgangurinn með útgjöldum ríkissjóðs. Tilgangur skatta er nota bene ekki að fjármagna verkefni ríkissjóðs heldur að dempa verðbólgu.

En við erum alla vega komin í þá stöðu að það er markmið ríkisstjórnarinnar að koma á því sem ég vil kalla innri landamærum á Íslandi í formi veggjalda, sem takmarka ferðafrelsi fólks við efnahag þess. Sumt fólk mun hreinlega ekki lengur hafa efni á því að búa í Þorlákshöfn eða í Hveragerði eða í Vogum og keyra til Reykjavíkur á morgnana ef af þeim verður. Auðvitað er ekki komið fram frumvarp um að gera slíkt en það stendur víst til. Það er ekki komið í umsagnarferli, ekki komið inn í samráðsgátt, þannig að við vitum ekki nákvæmlega hvernig það verður en alla vega virðist meiri hlutinn á Alþingi halda að veggjöld séu lausnin sem þjóðin hefur leitað. Ég segi nei.

Réttlætingin sem er gefin er að þau eigi að verða til þess að hraða uppbyggingu innviða sem hver ríkisstjórnin á fætur annarri frá hruni hefur sleppt því að vinna að uppbyggingu á. Því á fólk að trúa, en fólk gerir það ekki. Fólk veit alveg hvernig þetta virkar, sérstaklega þeir sem keyra Reykjanesbrautina á hverjum morgni og kannski allir sem keyra ekki Sundabrautina á hverjum morgni.

Það að taka upp almenn veggjöld virðist fyrst og fremst snúast um að opna á skref í átt að einkavæðingu vegakerfisins, sem gengur gegn þeirri grundvallarreglu að innviðir landsins séu almennt aðgengilegir almenningi til afnota, óháð efnahagsstöðu. Jú, vissulega þarf fólk enn þá að eiga bíl eða það getur tekið strætó, en veggjöldin sjálf eru atlaga að búsetufrelsi fólks, að það geti búið þar sem það kýs án þess að þurfa að stilla upp ráðahag sínum á óeðlilega vegu.

Um leið og veggjöld komast á mun Sjálfstæðisflokkurinn nota tilvist þeirra sem tylliástæðu til þess að lækka framlög til samgöngumála. Við vitum að það er tilfellið vegna þess að þannig hefur það verið með svo margar gjaldskrárbreytingar í gegnum tíðina. Þetta er modus operandi, frú forseti. Þetta er aðferðafræðin.

Grunninnviði á ekki að fjármagna með sértækum gjöldum. Hugmyndin með samfélagslegum innviðum er að allir geti nýtt sér þá til gagns fyrir sig og fyrir samfélagið. Almenn veggjöld á þjóðvegum landsins eru ígildi innri landamæra. Þau letja fólk til ferða, setja efnahagsleg takmörk á ferðafrelsi fólks og grafa undan samfélögum. Þetta eru landfræðileg vistarbönd og ég mótmæli þeim.