149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun, 2019–2023. Ég vil byrja á því að þakka formanni nefndarinnar og varaformanni fyrir þeirra ágæta starf. Það hafa fjölmargir komið á fund nefndarinnar eins og kemur fram í nefndarálitinu og það liggur mikil vinna að baki þessu sem er vel unnin að mínum dómi og ítarleg. Það er ánægjulegt að lesa í gegnum þetta nefndarálit, það er ítarlegt og gott að mínu mati.

Það kemur fram, eins og við þekkjum, að uppsafnaður vandi er mikill. Ég vil einnig þakka nefndinni fyrir að hafa þó náð sátt um að ráðast í þær miklu endurbætur sem er svo sannarlega þörf á. Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir að taka af skarið varðandi upphaflegar áætlanir ríkisstjórnarinnar sem gengu út á að fara mun hægar í sakirnar eins og t.d. hvað Reykjanesbrautina og Suðurlandsveginn varðar. Það stóð ekki til að ljúka þeim framkvæmdum fyrr en eftir 20 ár. Það er búið að breyta því. Það sama á við um brýnar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum sem stóð til að yrðu gerðar á mun lengri tíma. Ég fagna frumkvæði formannsins í því að taka af skarið og breyta þessum áætlunum. Það er vel að mínu mati.

Við þekkjum það að álagið á þjóðvegum landsins er ekki síst mikið vegna hins mikla og aukna ferðamannastraums sem við höfum búið við undanfarin ár. Það þýðir náttúrlega að álag á þessum vegum og slit á þeim hefur margfaldast. Í lok 2017 hafa 2,2 milljónir ferðamanna komið til landsins og mjög stór hluti af þeim hópi ferðast um á bílaleigubílum. Svo eru það náttúrlega langferðabifreiðarnar og allt sem fylgir ferðamannastraumnum um landið. Það hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á samgöngukerfið.

Á bls. 3 er rætt um tekjur ríkisins af olíu- og bensíngjaldi sem komi til með að minnka í framtíðinni vegna þess að þeim fækkar jú bifreiðunum sem nýta jarðefnaeldsneyti. Ég er sammála því að það er brýnt að taka þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur tekjustofna sem hafa minnkað að sama skapi með því að rafmagnsbílarnir bera nú engin gjöld. Þetta hefur aðeins komið inn á borð fjárlaganefndar og ég tek undir þá áherslu sem meiri hlutinn leggur á að almennu gjöldin verði endurskoðuð. Það er mikilvægt.

Síðan kemur fram að það þurfi að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur. Það skal ég taka heils hugar undir. En svo segir hér á bls. 3 að tryggja þurfi að veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram ábata af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi. Þetta finnst mér dálítið loðið. Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á það í þessari umræðu — og það er fyrirvari sem flokkurinn gerir við þessa þingsályktunartillögu — að álögur verði lækkaðar á móti ef af þessari veggjaldahugmynd verður, álögur eins og bifreiðagjöld og önnur gjöld sem eru mjög há eins og við þekkjum á bifreiðaeigendur og notkun bifreiða.

Ef við förum aðeins yfir í gjaldtökuna, þ.e. vegtollana, kemur fram að meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að gjaldtöku verði hagað á þann veg að jafnræðis verði gætt milli landsmanna og að þeir gestir sem koma til landsins taki þátt í uppbyggingu samgöngukerfisins. Það er að sjálfsögðu jákvætt og eðlilegt að þeir taki þátt í þessu.

Vikið er að því þegar rætt er um gjaldtökuna að það sé góð reynsla af Hvalfjarðargöngunum í því sambandi. Ég held að við verðum aðeins að taka því með smáfyrirvara. Þetta er ekki alveg réttur samanburður að mínu viti. Við þekkjum það svo sem að gjaldtakan af Hvalfjarðargöngunum, sem var mjög umdeild í upphafi, hefur skilað því að þetta ágæta og góða samgöngumannvirki hefur skipt verulegu máli eins og t.d. fyrir Vesturlandið og alla þá sem ferðast norður í land. En engu að síður er þetta ekki alveg sambærilegt að mínu mati vegna þess að þar hafa menn val um að fara Hvalfjörðinn, í samanburði við þessa fyrirhuguðu gjaldtöku á helstu stofnbrautum út frá höfuðborgarsvæðinu, t.d. Reykjanesbrautina, þar sem er ekkert val. Að því leytinu til er þetta ekki alveg sambærilegt að mínu mati.

Á bls. 5 er rætt um helstu gjaldtökur á þremur meginstofnæðum, Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, út frá höfuðborgarsvæðinu. Mig langar að fara aðeins nánar í þessa vegtolla. Við sjáum það náttúrlega og vitum að þetta er stórmál, þetta er skattheimta sem kemur til með að skipta alla landsmenn máli. Og eins og ég nefndi eru skattar á bifreiðar nú þegar miklir. Hér er um verulega aukna skattheimtu að ræða verði það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur boðað á vormánuðum að lögum. Það er svolítið athyglisvert hvernig þetta mál kemur upp án þess að við fáum nánari sýn á kostnaðinn við uppsetningu og rekstur á myndavélarbúnaði og innheimtukostnað. Gleymum því ekki að veggjöld voru ekki á dagskrá fyrir síðustu kosningar og eru ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur svolítið óvænt inn.

Það má geta þess t.d. varðandi myndavélaeftirlit, sem væntanlega verður þá til staðar, að því getur fylgt verulegur kostnaður. Ég veit til þess að í Svíþjóð var innheimtur svokallaður þrengslaskattur af þeim sem aka inn í miðborg Stokkhólms. Tæknivinnan og kostnaðurinn við það innheimtukerfi kostaði hvorki meira né minna en 40 milljarða kr. Það þarf að fara mjög vel ofan í það hvar allur þróunar- og umsýslukostnaður tengdur mögulegum vegtollum hér á landi kemur til með að koma þyngst niður á almennum notendum. Það er lágmarkskrafa að vandað sé betur til allrar stjórnsýslu hvað varðar þessar hugmyndir um vegtolla. Núverandi tillögur eru ómótaðar og það er mikilvægt að almenningur eigi aðkomu að þessum tillögum ef á að nást sátt um þetta. Þetta er umdeilt í samfélaginu. Í þessum efnum skipta líka jafnræðissjónarmið og umhverfismarkmið miklu máli.

Vegtollar eru nýr skattur á bifreiðaeigendur, ofan á þá ofurskatta, vil ég segja, sem eru lagðir á eign og rekstur heimilisbílsins. Sagan segir okkur það nú að skattar sem eru lagðir á eru sjaldnast dregnir til baka. Vil ég nefna í því sambandi bifreiðagjaldið sem var lagt á fyrir 30 árum að frumkvæði jafnaðarmanna. Það átti að vera til bráðabirgða í eitt ár til að uppfylla fjárlagahalla á þeim tíma en er enn við lýði 30 árum síðar og skilar tæpum 8 milljörðum kr. úr vasa bifreiðaeigenda í ríkissjóð árlega. Einnig má minnast á kolefnisgjaldið sem var fyrst lagt á bifreiðaeigendur 2010. Það ár gaf það 1 milljarð kr. í ríkissjóð en í fjárlögum núna fyrir þetta ár skilar það ríkissjóði 3,7 milljörðum kr. rúmlega og ekki er allt féð nýtt til umhverfismála í þeim efnum. Sporin hræða hvað það varðar að vegtollar verði ekki bara nýttir til vegaframkvæmda. Ég vona svo sannarlega að það verði en dæmi eru til sem sanna annað.

Það sem er líka athyglisvert við þetta eru sinnaskipti Framsóknarflokksins hvað varðar veggjöld. Flokkurinn gekk fyrir síðustu kosningar hvað harðast fram gegn veggjöldum og hafði sig mjög í frammi með að flokkurinn væri ekki hlynntur vegtollum. Það er svolítið athyglisvert að sjá þessa kúvendingu hjá hæstv. samgönguráðherra í þessu máli.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur gagnrýnt þessar hugmyndir, ekki síst í ljósi þess að það vanti kostnaðargreiningu á því hvað kosti að setja upp, innleiða og reka þetta innheimtukerfi. Þar þurfum við að líta til þátta eins og virðisaukaskatts, innheimtuþóknunar og annars rekstrarkostnaðar. Það er alls kostar óvíst hvað veggjöld muni gefa af sér í tekjur og hversu mikið innheimtan muni kosta neytendur. Þetta þarf allt að ræða og fara vandlega yfir. FÍB hefur áhyggjur af því að þarna sé verið að fara yfir í nýja skatta á fjölskyldurnar í landinu og hefur fyrir sér í þeim efnum þær forsendur að nú þegar eru innheimtir af bíleigendum 80 milljarðar í skatta og gjöld. Hér eru greinilega auknar álögur á heimilin og ég ítreka það enn og aftur að Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að ef þetta verður að veruleika verði að lækka önnur gjöld á móti.

Þetta var um veggjöldin. Ég ætla kannski aðeins að bæta við þetta og nefna mismunun eftir búsetu sem er áhyggjuefni að mínu mati, að þessi gjaldtaka komi ekki til með að endurspegla notkun á þeim leiðum sem falla undir fyrirhuguð framkvæmdasvæði. Þar koma veggjöldin náttúrlega hart niður á þeim sem búa í nágrenni við höfuðborgarsvæðið og þurfa að aka daglega fram hjá gjaldstöðvum eða myndavélum. Margir munu líka eflaust aka stuttan kafla af þeim leiðum sem ætlað er að vinna við framkvæmdir á. Þá koma jafnræðissjónarmið inn í það. Menn eru kannski að greiða tiltölulega háa upphæð fyrir litla notkun á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar sleppur ef til vill að mestu leyti við að greiða þessi gjöld þó að viðkomandi noti aðra þjóðvegi landsins til jafns við þá sem þurfa að greiða. Síðan er það stofnkostnaður eins og áður segir. Hann getur verið mikill og flókinn tækjabúnaður nauðsynlegur. Það er því að mörgu að hyggja hvað þetta varðar og viðbúið að margir eigi erfitt með að standa undir háum fjárútgjöldum vegna þessa, einkum tekjulágir. Og svo er það gjaldtakan á erlenda ferðamenn sem er tekið sérstaklega fram að eigi að taka þátt í þessu. Eitthvað af ferðamönnum kemur á eigin bifreiðum hingað til lands þannig að það er úrlausnarefni hvernig eigi að innheimta það og síðan getur innheimta álagsgjalda, sekta vegna vanskila o.s.frv. verið bæði flókin og dýr. Þetta er það sem ég vildi segja um fyrirhugaða gjaldtöku, vegtolla.

Næst ætla ég að koma inn á kaflann á bls. 10, um almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins. Þar kemur fram að miklir hnökrar hafi verið á framkvæmd almenningssamgangna milli og innan landshluta. Þá er getið þess að Vegagerðin vann að framlengingu samninga út árið 2019 og er því lokið, segir hér. En svo er jafnframt sagt að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi staðið utan við þetta samkomulag. Ágreiningur milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sé kominn fyrir dómstóla. Það sem sagt er um þetta er ekki alls kostar rétt að mínu mati. Það kom fram sáttatillaga frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum um hvernig væri best að greiða upp hallann á þessari þjónustu, sem er töluverður, og hvernig bæta mætti þjónustuna. Vegagerðin var tilbúin til þess en ráðuneytið ekki. Það er umhugsunarefni, stífni ráðuneytisins í þessu. Það er brýnt að málið verði leyst því að þetta fyrirkomulag hefur reynst vel. En það hafa vissulega verið hnökrar, einkum og sér í lagi vegna halla sem er brýnt að leysa úr.

Ég vil aðeins víkja næst að málefnum flugsins. Það kemur fram í ágætum kafla að það þoli enga bið að hefja vinnu við aukið flugöryggi með eflingu varaflugvallanna. Ég vil taka heils hugar undir þetta. Það er t.d. mjög mikilvægt að ljúka vinnu við flughlaðið á Akureyri. Það eru líka öryggissjónarmið ef Keflavíkurflugvöllur lokast og auk þess bíða minni flugfélög eftir aðstöðu sem er tengd flughlaðinu. Ég tek undir þetta. Það sama á við um Egilsstaði og akstursbraut þar, brýnt er að fara í þær framkvæmdir. Síðan er einnig rætt um að meiri hlutinn vilji að minni vélum í millilandaflugi verði veitt heimild til að lenda á Hornafirði og í Vestmannaeyjum og á Ísafirði og ég tek heils hugar undir það. Þetta er mjög mikilvægt og getur að sjálfsögðu létt álagi af vegum landsins. Einnig er rætt um mikilvægi þess að tekið sé mið af þörfum flugkennslu sem er mikilvægur þáttur í uppbyggingu flugsins og ég tek heils hugar undir það. Nú er t.d. nánast öll flugkennsla að flytjast yfir til Keilis á gamla varnarsvæðinu og þar eru erfiðleikar við að nýta flugvöllinn vegna þess að þar gengur millilandaflugið náttúrlega fyrir. Það er brýnt að fara að finna aðstöðu fyrir kennsluflug.

Einnig vil ég fagna þeim hugmyndum sem koma hér fram um að niðurgreiða flugfargjöld innan lands. Þetta er ákaflega mikilvægt landsbyggðarmál og gott að nefndin leggur áherslu á það.

Síðan er rætt á bls. 16, í kaflanum um sjóvarnir og hafnir, að auknu fjármagni verði varið til gerðar sandfangara við Einholtskletta á Hornafirði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við og ráðuneytið séum meðvituð um nauðsyn þess að siglingaleiðin utan við Hornafjarðarós sé greiðfær allan ársins hring. Verði það ekki gert er framtíð sjávarútvegs á Höfn í hættu. Greið leið inn í höfnina er forsenda þess að áfram verði unnið að uppbyggingu sjávarútvegs á Höfn. Annars er viðbúið að þau ágætu fyrirtæki sem þar eru leiti annað.

Frú forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég hef náð að fara yfir það helsta (Forseti hringir.) og vil þakka góðar umræður í þessu mikilvæga máli.