149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun í síðari umræðu, annars vegar fimm ára samgönguáætlun og svo þingsályktunartillögu um 15 ára samgönguáætlun 2019–2033. Mikil umræða hefur skapast í þjóðfélaginu um samgöngur og aðallega um hugmyndir um gjaldtöku og hvernig við sjáum fyrir okkur breyttar forsendur í fjármögnun samgangna í framtíðinni.

Oft og tíðum finnst mér umræðan komin ansi langt frá því sem hér er rætt um, þ.e. frá þeirri samgönguáætlun sem við tökum hér fyrir. Í áliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar eru gjaldtökuhugmyndir vissulega nefndar í tengslum við mikilvæg verkefni sem ákall er um að flýta, en gjaldtökuhugmyndir eru í raun bara á hugmyndastigi. Hér er um að ræða breytingartillögur sem snúa að framvindu verkefna næstu tvö árin, hliðrun verkefna og fjár á milli tímabila, sem auðvitað hnika til framkvæmdaferli en eru í sjálfu sér veigaminni breytingar þegar að er gáð. Það er sama hvar borið er niður í umræðu um samgöngumál, og birtist í umsögnum um þetta viðamikla mál og í máli gesta fyrir nefndinni, að átaks er þörf í vegaframkvæmdum um gjörvallt land, bæði sem snýr að viðhaldi og nýframkvæmdum á öllum flokkum vega, eins og það er orðað, og jafnframt er talið afar brýnt að auka framkvæmdahraðann í þeim verkefnum sem við sjáum fram í tímann í þeim áætlunum sem við erum að ræða.

Uppsafnaður vandi er mikill og hefur komið fram á undanförnum misserum. Í kjölfar hrunsins var dregið saman í fjárframlögum til málaflokksins og fjárveitingar alls ekki í samræmi við þörf. Uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegum landsins er því mikil, sem og þörf fyrir nýframkvæmdir og aukna þjónustu, til að mynda vetrarþjónustu og vegmerkingar. Á sama tímabili hefur umferð aukist mikið, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna, en umferð á síðasta ári jókst um 11%. Þess vegna hefur krafan um greiðar og öruggar samgöngur allt árið aukist verulega og er þunginn í því ákalli alltaf að verða meiri. Um þessa stöðu voru allir stjórnmálaflokkar meðvitaðir fyrir rúmu ári í kosningabaráttu sinni og hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafa svo sannarlega sett á dagskrá að bæta verulega í málaflokkinn og fara af stað í þá uppbyggingu sem þörf er á, nauðsynlegar nýframkvæmdir, eins og að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, um Vesturlandsveg, um Kjalarnes, um Suðurlandsveg, um Reykjanesbraut, en kostnaður við þær framkvæmdir einar og sér er metinn á um 60 milljarða kr. Til samanburðar eru framlög úr ríkissjóði til samgangna 2019 tæpir 42 milljarðar. Með þá fjárhæð tekur 10 ár að mæta heildarfjárfestingarþörfinni sem áætluð er, og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, 350–400 milljarðar kr. Það er einfaldur deilireikningur sem ég fer yfir til samanburðar, því að auðvitað er þetta ekki svo einfalt, vegna þess að allar framkvæmdir kalla fram fjárfrekt viðhald.

Þetta eru háar fjárhæðir, virðulegur forseti, og ég held að við verðum að jarðtengja umræðuna. Eins og fram kemur er það staðreynd að Ísland er strjálbýlt land og vegakerfið því umfangsmikið miðað við fólksfjöldann og við ekki í færum til samanburðar við nágrannalöndin. Til að átta sig á umfanginu er athyglisvert að skoða ríkisreikning 2017. Þar er vegakerfið í fyrsta sinn fært til eignar auk hluta af hafnarmannvirkjum í því innleiðingarferlið sem alþjóðareikningsskilastaðlar kveða á um, þ.e. að færa til eignar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum. Vegakerfið er þannig fært í bókum Vegagerðarinnar og færist síðan sem hluti af eignum ríkissjóðs og er matið brotið niður á flokka sem hafa mislangan endingartíma, en meginflokkar eru metnir til eignar, eins og t.d. land og fyllingar, styrktarlag, burðarlag og slitlag. Auk þess eru ræsi, skilti og ristahlið ásamt göngum og brúm, þannig að það er nokkuð vel greint niður í hverju eignin er fólgin. Þar kemur fram að endurmetið stofnverð vegakerfisins er um 800 milljarðar kr. og óafskrifaður hluti þess 565 milljarðar kr. Afskriftir vegna ársins 2017 voru 9,4 milljarðar. Slíkt bókhald er mikil framför og gefur til framtíðar gleggri mynd af samsetningunni og því umfangi sem við er að eiga og ekki síst þeirri viðhaldsþörf sem myndast af slíku eignaumfangi. Álagið á kerfið hefur aukist og þungavöruflutningar hafa færst í vöxt — því þyngri sem bílarnir eru því meira slit verður á vegum — og ferðamönnum á ferð um vegi hefur sannarlega fjölgað.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur bent á, og það réttilega að mínu viti, að ferðaþjónustan og aukningin þar á síðustu árum geri að verkum að umræða um flýtingu framkvæmda geti yfir höfuð gengið upp og að framkvæmdir verði fjármagnaðar hraðar og fyrr. Hann bendir eins og margir hafa gert á Hvalfjarðargöng því til stuðnings en þau voru greidd upp fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir, en tæplega 3 milljónir vegfarenda fara um veginn en ekki 340.000. Okkur hættir til að tala um þessa fjölgun í neikvæðum tón, gagnvart þessum vexti, en ég held þvert á móti að það sé ekki raunin. Við fögnum því auðvitað hve greinin hefur vaxið og dafnað og er mikilvægt að við náum samstöðu um að hraða framkvæmdum, með sértækri gjaldtöku ef þess þarf. Það er mikilvægt að ná samstöðu um slíkt. Það er stórmál að við framfylgjum þeim hugmyndum að þessu leyti til að greiða fyrir umferð og auka öryggi í umferðinni og hraða þannig framkvæmdum. Af því að ég minnist hér á ferðaþjónustuna verður að undirbúa það vel í samvinnu við atvinnugreinina, en einn af kjarnaþáttum í ferðaþjónustu eru samgöngur. Ég fagna því frumkvæði Samtaka ferðaþjónustunnar að vinna að lausnum með stjórnvöldum. Samtök ferðaþjónustunnar hafa þegar haft frumkvæði að samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vegna þessara þátta og ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Það er kannski mikilvægast, áður en af stað er farið, ef hugmyndir um flýtingu framkvæmda verða að veruleika, að gefa öllum tækifæri til að átta sig á hlutunum og vinna saman að slíkum lausnum þannig að sátt ríki um slíkar ákvarðanir og að þær virki. Mér finnst reyndar eins og umræðan um veggjöld, aukna gjaldheimtu og aukaskattlagningu á bifreiðaeigendur hafi farið langt fram úr þeim tillögum sem við ræðum í þessari samgönguáætlun, en um leið er í nefndaráliti meiri hlutans þannig tekið á málum að það geti grundvallað þessar hugmyndir áður en nákvæm útfærsla í sérstöku frumvarpi frá hæstv. samgönguráðherra kemur hér fyrir þingið.

Varðandi fjármögnun á samgöngum þarf að líta til orkuskipta og þróunar í framtíðinni og taka tillit til þeirra þátta. Það verður að gerast svo að við verðum ekki eftir á með slík umskipti þegar tekjur af bensíni og olíugjaldi dragast óhjákvæmilega saman og tekjusamdrátturinn verður kominn niður að því átaki sem þarf að eiga sér stað, því að þá gerist það sem við höfum horft fram á undanfarinn áratug að vandinn eykst til framtíðar og við munum seint ná í skottið á okkur með uppsafnaða viðhaldsþörf, hvað þá að komast í þarfar og brýnar nýframkvæmdir innan þess tímaramma sem kallað er eftir. Það hlýtur því að vera hægt að taka undir áréttingu sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu ár og unnið verði markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og kostur er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og öryggissjónarmiða. Mikilvægt er að leita leiða til að flýta brýnustu samgöngubótum sem mest.“

Lengra er ekki gengið hér en að árétta það sem allir eru sammála um að þurfi að gerast, þá samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu. Þá er einnig á það bent að út frá hagvaxtarþróun sé slaki að myndast í hagkerfinu sem skapi aðstæður til þess að fara í framkvæmdir án þess að stöðugleika og kröfu um jafnan hagvöxt verði raskað og þannig byggt undir hagvöxt og framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Undir það er hægt að taka, virðulegi forseti.

Meiri hlutinn færir síðan í nefndaráliti sínu mikilvæg og sannfærandi rök fyrir því að skynsamlegt geti verið að flýta ferlinu sem boðað er í samgönguáætlun og bendir m.a. á tengslin við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, mikilvægi orkuskipta sem sé til þess fallið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, eins og þar stendur. Þannig geti sértæk gjaldtaka, hófleg veggjöld, flýtt fyrir því að auka ávinning okkar af slíkum framkvæmdum í betri og greiðfærari vegum og þar af leiðandi umferð og akstri með minni eyðslu og tilkostnaði. Kannski er mikilvægast í því tilliti að skoða heildarsamhengi gjaldtökunnar, almennu gjöldin eins og olíu og bensín og bifreiðagjöld, þ.e. að álögin aukist ekki umfram ábatann sem fæst af slíkum framkvæmdum. Slík heildarendurskoðun er óhjákvæmileg fyrr en seinna enda sú vinna þegar hafin á vegum stjórnvalda.

Samgönguáætlun er nú, ólíkt því sem oft hefur verið, í samræmi við fjárlög, áætlun og stefnu og er þess vegna fullfjármögnuð eins og hún er lögð upp og ekki eru breytingar á því hér á milli umræðna. Er það vel og jákvætt að lögin um opinber fjármál eru farin að virka á þann veg að áætlanir tali saman, að samræmi sé á milli stefnuáætlunar, framkvæmda og fjármögnunar eins og lagt var upp með þegar þau lög voru samþykkt hér á Alþingi, þ.e. um langtímahugsun, stöðugleika og aga við framkvæmd fjárlaga og eins að treysta aðkomu Alþingis að því að setja markmið í ríkisfjármálum og opinberum fjármálum sem liggi til grundvallar við gerð fjárlaga.

Þessi áætlun, eins og hún liggur fyrir hér, er í fullu samræmi við samþykkta fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar. Og ef vilji er fyrir því að fara hraðar og samstaða næst um slíkar hugmyndir þá kostar það og þá þarf að hugsa aðrar leiðir til þess. Það er ekkert að því að ræða það, eins og umræðan hefur verið, að setja grundvöll að slíkri umræðu fram eins og gert er hér af hálfu meiri hlutans og er í fullu samræmi við þá vinnu sem hæstv. ráðherra hefur sett í gang með starfshópum til að koma með tillögur að lausnum og fjalla um þær áskoranir sem blasa við öllum í samgöngumálum. Það er reyndar til fyrirmyndar, vil ég meina, að horfa til framtíðar og hugsa í lausnum út frá þeim áskorunum sem eru til staðar og jafnframt að ræða það við þingið, í gegnum hv. umhverfis- og samgöngunefnd, í tengslum við samgönguáætlun eins og gert hefur verið, þannig að aðkoma þingsins sé tryggð eins og vera ber. Það er vel undirbyggt og á þeim forsendum leggur meiri hlutinn til breytingu á markmiðum í fimm ára samgönguáætlun þannig að það liggi skýrt fyrir að vinna eigi áfram að útfærslu nýrra fjármögnunarleiða. Það verður þá gert með sérstöku frumvarpi sem kemur fyrir þingið og þarf auðvitað að lúta þeim lögum sem við höfum sett okkur um stefnu og áætlanir í opinberum fjármálum.

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um mikilvægi þess að flýta framkvæmdum til að auka öryggi í umferðinni. Og hér þarf að meta ávinninginn fyrir bifreiðaeigendur eða vegfarendur af framkvæmdinni umfram þau útgjöld sem þau útheimta, meta álögurnar í samræmi við ábatann fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðfélagið. Ég fagna þeirri áherslu sem meiri hlutinn hefur sett fram og verð að tjá mig um það sem þingmaður í Suðvesturkjördæmi að brýnt er að reyna eftir öllum leiðum og með öllum ráðum að ljúka fyrr framkvæmdum við lokaáfanga Álftanesvegar, legginn á milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar, en þeim áfanga hefur ítrekað verið frestað og verður að klára fyrr en boðað er í upphaflegri áætlun. Skipulagi og hönnun er lokið, eins og sagt er í nefndaráliti, og það eru fyrst og fremst öryggisástæður þar og vaxandi umferð sem vega þungt. Það liggur fyrir að viðbragðstími vegna sjúkraflutninga og slökkviliðs stenst ekki þær kröfur sem þeim aðilum er gert að starfa eftir og því er um mjög brýnar úrbætur að ræða og þeim verður með öllum tiltækum ráðum að hraða.

Eystri byggð í Kópavogi byggist hratt og sveitarfélagið hefur staðið sig vel í almennri þjónustu sem hefur fylgt. Þarna er orðin mjög fjölmenn og blómleg byggð og blandað atvinnusvæði á Vatnsendasvæðinu. Umferðaræðar í gegnum Vatnsendahverfið eins og það er í dag eru sprungnar og finnum við vel fyrir því á álagstímum (Gripið fram í.) — þar eru oft miklar tafir, en þar fara yfir 12.000 bílar um á sólarhring.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að efla almenningssamgöngur á landi, í lofti og á sjó um allt land og fer ágætlega yfir stöðuna og þróunina seinni ár og vitnar m.a. til vinnu sem unnin var á árinu 2018 í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um mótun heildstæðrar stefnu í almenningssamgöngum. Ég fagna þeirri vinnu sem hæstv. ráðherra hefur lagt í varðandi borgarlínu sem hluta af almenningssamgöngum. Það er mikilvægur áfangi í skipulagi samgangna innan höfuðborgarsvæðisins, kerfi sem greint er frá annarri umferð. Það er mikilvægt að útfæra það, fá framtíðaruppbyggingu og viljayfirlýsingu og samráð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins til að auka valkosti, draga úr fyrirsjáanlegri umferðaraukningu og tilheyrandi umhverfisáhrifum. Ágæt skýrsla liggur að baki þessum áformum um þróun umferðar. Ef ekkert verður að gert mun ástandið versna til muna.

Ég fagna jafnframt þeirri vinnu sem hæstv. ráðherra hefur með skipan starfshóps látið vinna varðandi flugsamgöngur. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur farið fyrir þeirri vinnu og fór hann vel yfir flugþáttinn í ræðu sinni fyrr í dag og sérstaklega það að gera innanlandsflugið að hagkvæmum valkosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Skoska leiðin var nefnd en fyrir henni höfum við Framsóknarmenn talað og vonandi að hún verði að veruleika eins og boðað er.

En það gengur hratt á tímann. Ég ætlaði reyndar ekkert að tala svona lengi, virðulegi forseti, en þetta er stórt mál og um margt að ræða. Ég vil hér í lokin benda á hið augljósa að baki umfjöllun um þetta mikilvæga mál og áætlanir: Í allri umfjöllun og vinnu hefur hv. umhverfis- og samgöngunefnd unnið mjög gott starf. Ég þakka fyrir þá vönduðu vinnu og grunninn að þeirri umræðu sem við höfum farið í gegnum hér. Ég tek undir með hv. samflokksmanni mínum, Líneik Önnu Sævarsdóttur, sem á sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hefur unnið vel og dyggilega að þessu nefndaráliti meiri hlutans. Hún talar gjarnan um að samgöngur snúist um margt og snerti allt okkar samfélag. Þær eru stærsta byggðamálið, snúast um heilbrigðismál, menntamál, íþróttamál, velferðarmál; eru umhverfismál, eru menningarmál og eru risastórt, eðlilega, atvinnumál.

Áhersla á greiðar og öruggar samgöngur um allt land er forsenda þess að nýta auðlindir um allt land, stuðla að fjölbreyttum atvinnuvegum og byggja þannig undir velferð og lífskjör sem okkur hefur blessunarlega tekist að bæta tiltölulega hratt. Þrátt fyrir allt búum við vel, í það minnsta í alþjóðlegum samanburði, og er ég þá að tala um lífskjör. Þá hlýtur okkur að hafa tekist að einhverju leyti vel upp varðandi samgöngur, en við viljum gera betur. Við þurfum að mæta auknu álagi. Við höfum skuldbundið okkur alþjóðlega til að takast á við loftslagsbreytingar. Allt þetta skiptir máli.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við samþykkjum þessa samgönguáætlun eins og lagt er til og tökum svo umræðuna um breytt gjaldtökuáform og breytingar í framtíðinni þar sem tekið verði mið af þessum þáttum og kröfu um flýtingu verkefna. Tökum þessa umræðu áfram og reynum að ná sem mestri sátt um hana.