149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst nauðsynlegt að grípa formann fjárlaganefndar aðeins til að tala um viss atriði sem varða lög um opinber fjármál, sem tengjast samgönguáætlun. Vissulega er samgönguáætlun fullfjármögnuð en það hefur líka komið fram að hún sé það ekki, enda á að fara út í vegtolla o.s.frv. til að auka fé til að endurskoða samgönguáætlunina.

Fyrst hv. þingmaður nefndi lög um opinber fjármál þá datt mér í hug það sem fjármálaráð hefur sagt í álitum sínum um fjármálaáætlun og fjármálastefnu, en það er svokölluð kostnaðar- og ábatagreining. Nú er sú kostnaðar- og ábatagreining sem fylgir þessum framkvæmdum engin, en við höfum þó fengið vísi eða þef af þeim ábata sem yrði af þeim framkvæmdum sem farið yrði í á höfuðborgarsvæðinu, sem ganga nokkurn veginn svona, þetta eru grófar áætlanir: Kostnaður af slysum og því um líku, því sem er umferðartengt, er um 50 milljarðar á ári. Framkvæmdirnar eru sagðar allt að helminga þann kostnað, 25 milljarðar þar. Þetta er í samfélagslegu samhengi, þ.e. allri landsframleiðslunni. Ríkið tekur kannski 40% af því þannig að það ættu að sjást um 10 milljarðar eða svo í mismun á fjárlögum vegna framkvæmdanna, í minni heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum og ýmsu sem því fylgir.

Þetta eru 10 milljarðar. Segjum að það væru bara 5 milljarðar, til að áætla varlega. Miðað við skýrslu hóps um samgöngur dygði það til að fjármagna allt þetta og í rauninni meira til á hverju ári. (Forseti hringir.) Af hverju þurfum við þá veggjöld til viðbótar? Hefur kostnaðarábatagreiningin ekki sýnt okkur að hagurinn af því að fara í þetta (Forseti hringir.) er mun meiri fyrir allt samfélagið en við fáum úr veggjöldunum? Það er ekki nóg með að við fáum ábatann heldur borgum við aukalega fyrir hann, þetta er tvírukkun.