149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Sú samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar er kannski á nokkuð undarlegum stað, ef hægt er að orða það þannig. Ráðherra leggur á sínum tíma fram áætlun sem hefur tekið töluvert miklum breytingum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. En auðvitað var ráðherra vorkunn, það plagg sem hann lagði fram var í stíl við það sem fram hafði komið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þ.e. þar var frekar rýr kafli sem sneri að samgöngum. Það er því mjög ánægjulegt að sjá að nefndin hefur tekið til hendinni við áætlunina og vil ég þakka nefndarmönnum og sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir að hafa tekið málið föstum tökum, breytt og komið með tillögur sem eru mjög til bóta, að sjálfsögðu.

Það sem er líka ánægjulegt er að það virðist vera einhugur meðal þingmanna um nauðsyn þess að stórauka framkvæmdir, ekki síst í viðhald samgöngukerfisins. Ég held að við verðum að fagna þessum einhug. Hér hefur líka verið komið inn á það og einhver sagt að samgöngumál séu ekki alltaf það áhugaverðasta sem talað er um. Það er að mörgu leyti skiljanlegt en þegar við lendum hins vegar sjálf í því að komast ekki leiðar okkar eða vera föst einhvers staðar í umferð eða að missa af flugi breytist nú tónninn svolítið. Ætli það sé ekki svipað á höfuðborgarsvæðinu þegar við erum föst í umferðarteppu og þegar fólk kemst ekki leiðar sinnar á Vestfjörðum að sumri til vegna drullu eða á Vatnsnesinu vegna drullu. Öll erum við að hugsa um það sama, að reyna að komast leiðar okkar.

Ég held að flestir séu sammála um að við þurfum einhvern veginn að hraða samgöngubótum en eðlilega sýnist sitt sýnist hverjum þegar kemur að því að forgangsraða, ákveða eða leggja fram tillögur um hvernig hægt sé að fjármagna þessar framkvæmdir. Við vitum að um leið og okkur tekst að hraða framkvæmdum, bæta umferð, bæta flutningskerfið á bílum eða öðru slíku, erum við að fækka slysum. — Ég hvet hv. þingmenn til að slökkva á símum sínum hér í salnum.

Ég hugsa að flestir geti verið sammála um það sem fram kemur á bls. 2 í nefndaráliti meiri hlutans og í rauninni er þar vitnað í samgönguáætlun sjálfa og tekið undir markmið hennar um, með leyfi forseta, „að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og markmið skýr um jákvæða byggðaþróun“. Þetta er mjög gott. Ég held að allir geti verið sammála um að skynsamlegt sé að vinna að þessu.

Í áliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að gestir hafi lagt áherslu á að það þyrfti að hefja átak til að bæta samgöngur og hraða framkvæmdum eins og unnt er. Þá kemur líka fram að fjárfestingarþörfin sé í heild 300–400 milljarðar kr. Þar kemur ýmislegt inn í, fjölgun ferðamanna, breytt búsetumynstur og fleira.

Að flýta framkvæmdum er allra hagur. Það bætir öryggi og dregur þannig úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Það að stytta ferðatíma er mikilvægt loftslagsmál og það er mikilvægt fyrir okkur öll að þurfa að eyða minni tíma í bíl eða einhverju öðru farartæki sem við getum nýtt þá með fjölskyldum okkar eða í vinnu eða með öðrum hætti.

Það er ósköp eðlilegt að það sé rætt um almenningssamgöngur, enda eru þær afar mikilvægar og mikilvægt að þróa þær og gera þær þannig að þær séu raunverulegur valkostur, sem er forsenda þess að fólk sé reiðubúið að hvíla einkabílinn. En í þeim gögnum sem nefndin hefur haft til umfjöllunar, og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og reyndar líka í nefndaráliti minni hlutans að nokkru leyti, í skýrslu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033, sem kom út í nóvember sl., sjáum við að takist ekki að breyta ferðavenjum fólks, þ.e. að það noti almenningssamgöngur meira, hjóli eða gangi muni umferð bíla aukast um 40% til ársins 2033. Takist að breyta ferðavenjum, þ.e. að fá fólk til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga, erum við samt sem áður að tala um 24% aukningu. Um leið og við tölum fyrir því og leggjum áherslu á það að við þurfum að bæta almenningssamgöngurnar og sjá til þess að þær verði raunverulegur valkostur, þá getum við ekki horft fram hjá því að við þurfum á sama tíma að greiða leið einkabílsins. Út á það ganga þær tillögur sem hér eru lagðar fram.

Eðlilega hafa umræður svolítið snúist um hvernig eigi að gera þetta. Í áliti meiri hlutans er lagt til að framkvæmdum sé hraðað til muna með því að fara leið notendagjalda. Við getum haft alls konar nöfn eða heiti á þessum gjöldum og hvað þau eru, notendagjöld, veggjöld, flýtigjöld eða eitthvað slíkt. Það er alla vega lagt til að farin sé blönduð leið, að rukka fyrir notkun, nota sölu á einhverjum eignum inn í þetta og svo má að einhverju leyti reikna hagnað — kannski er hagnaður ekki rétta orðið, en reikna okkur í plús ef við náum að spara annars staðar, t.d. í heilbrigðiskerfinu eða á svipuðum stöðum.

Ég held hins vegar að það sé draumsýn að halda að ef við náum að spara 30–40 milljarða í heilbrigðiskerfinu og bættum samgöngum fari þeir peningar þá bara úr heilbrigðiskerfinu og eitthvert annað. Við sem höfum verið hér í svolítinn tíma vitum það að heilbrigðiskerfið er ekkert að fara að minnka, það mun stækka og stækka, því miður, í rauninni. Þar af leiðandi held ég að annað sé bara draumsýn.

Eðlilega hafa þessar hugmyndir komið mörgum á óvart en það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa það í huga að afstaða Miðflokksins, eins og kemur skýrt ágætlega skýrt fram í nefndarálitinu og hefur verið haldið mjög á lofti af formanni nefndarinnar og okkur, er að ef við eigum að fara þessa leið, setja á sérstök gjöld, þá verða aðrir skattar sem lagðir eru á ökutæki og notkun þeirra að lækka á móti. Það er ekki hægt að leggja þessar álögur aukalega ofan á annað. Það er í rauninni forsenda þess að geta farið þessa leið að álögur lækki annars staðar á móti.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í þau orð, þó að það sé ekki bein tilvitnun, sem ágætur bæjarstjóri Hafnarfjarðar lét falla held ég í útvarpsþætti að sveitarstjórnarmenn væru almennt frekar hlynntir gjaldtöku ef peningarnir rötuðu í vegakerfið. Ef peningarnir kæmu í þessar framkvæmdir í þeirra sveitarfélögum eða til að stytta ferðatíma og bæta öryggi þar sem þess er þörf leggist þeir ekki gegn því að gjöld séu tekin upp. En við í Miðflokknum segjum hins vegar: Allt í góðu, við skulum skoða þetta vandlega og það verður gert á næstunni. Við förum í gegnum umræðu um hvernig sé hægt að útfæra þessa gjaldtöku þannig að hún leggist ekki bara ofan á annan kostnað sem við erum að greiða í dag. Það er vitanlega þannig að gjaldtakan í dag á bílum og notkun þeirra skilar sér ekki í vegakerfið. Það vantar heilmikið upp á þar. Þess vegna verðum við að finna þarna jafnvægi sem getur talist eðlilegt og sanngjarnt.

Það er hins vegar mjög jákvætt ef niðurstaðan verður að við getum farið einhvers konar blandaða leið, þ.e. að ríkið muni alltaf hafa yfirumsjón með þessum framkvæmdum, ef ég hef skilið þetta allt saman rétt, haldi á þeim í gegnum Vegagerðina eða einhvern félagsskap, hvernig sem það er gert. Við getum farið einhverja blandaða leið og flýtt þar af leiðandi bráðnauðsynlegum verkefnum eins og á Reykjanesbrautinni, sem er meiri háttar tappi í umferð þegar við keyrum í gegnum borgina og á Suðurnesin, svo við tölum nú ekki um alla leið til Keflavíkur, fyrir allar þær 2,5 milljónir farþega eða svo sem koma til landsins með flugi. Ég hef fyrirvara á þessum tölum ef ég er eitthvað að rugla. Það hefur nú komið fyrir. Það er mjög mikilvægt að þessari vegbót verði flýtt mjög mikið. Sjálfur var ég um 40 mínútur frá Vallahverfinu fyrir nokkrum mánuðum inn í Hlíðahverfi í bænum, 40 mínútur meira og minna bara í kyrrstöðu vegna þess að vegurinn réði ekkert við þetta.

Það þarf líka að nefna að Sundabrautin er virkilega mikilvæg. Það að ekki sé tekið á henni sérstaklega í þessari samgönguáætlun eða í áliti meiri hlutans er í samhengi við það að skipulagsmálin varðandi hana eru í ólestri eins og fram kemur í nefndarálitinu. Það þarf að vinna þau fyrst og síðan þarf vitanlega að ná nýjum samningi við borgaryfirvöld og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem gáfu þetta frá sér í rauninni, gegn tíu ára samningi um að það yrði farið í stórkostlegar samgöngubætur, gegn einhverri innspýtingu inn í almenningssamgöngur. Á sínum tíma gagnrýndi sá er hér stendur það samkomulag, fannst þetta vitlaust. Mér finnst það nú enn þá vitlaust, en ég held að það sé hins vegar mikilvægt að Sundabrautin verði að veruleika. Það er ekki boðlegt að hafa umferðarmálin eins og þau eru í dag, alla þessa þungu umferð í gegnum borgina og Mosfellsbæ og upp á Kjalarnes. Og talandi um Kjalarnes og Vesturlandsveg, það er líka hægt að flýta þeim framkvæmdum ef við förum þessa leið.

Ég ætla að leyfa mér líka að nefna að það hefur verið mikill áhugi hjá Garðbæingum að fá ákveðinn hluta af veginum þar í gegn í stokk og held ég að það sé eitthvað sem þurfi að ræða alvarlega.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum komin með ákveðna tillögu, ákveðna lausn. Það er margt sem þarf að ræða betur. Það þarf að fara yfir flugið t.d., en ég fagna því að það sé áhersla á Reykjavíkurflugvöll og minni á þá afstöðu sem fram kemur í álitinu hvað varðar flugvöllinn. Mikilvægi hans er óumdeilt. Eins þarf að skoða varaflugvellina sérstaklega. En við eigum eftir að ræða hér síðar, þegar að því kemur, hvernig útfærsla á gjaldtöku verður. Ég ítreka það sem Miðflokkurinn hefur sagt að þetta getur ekki verið hrein viðbót við aðrar álögur.