149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir fína ræðu, yfirgripsmikla. Hann náði að súmmera upp mörg helstu atriðin sem hér hafa verið rædd síðustu tvo daga. Ég stóðst ekki mátið að tala hér aðeins í lokin vegna þess að við virðumst eiga sameiginlegt áhugamál umfram ýmis önnur, sem er Reykjavíkurflugvöllur og framtíð hans. Hv. þingmaður talar um tengsl staðsetningarinnar í hjarta borgarinnar við hin ýmsu mál sem eru til umræðu til viðbótar við samgöngurnar, þ.e. ferðaþjónustuna, húsnæðismálin og loftslagsmálin. Úr því að við erum að tala hér um samgönguáætlun langar mig að fá áréttingu á því hvernig þetta getur spilað saman. Eins og hv. þingmaður velti ég vöngum yfir því hvernig við getum verið að ræða um samgöngumál til 15 ára, þar með talið almenningssamgöngur í Reykjavík, þó að þær hafi ekki hlotið mikið pláss í álitinu eða í áætluninni, og stýringu farþega inn til Reykjavíkur, og allt þetta um leið. Ég get svo sem lesið það út úr orðum hv. þingmanns en hvaða leiðir hefðu verið færar til að nálgast þetta úrlausnarefni í þessari viðamiklu samgönguáætlun sem þó er, hvort rétt hefði verið að draga þarna betur inn í stöðu mála o.s.frv. Eða hvað sér hv. þingmaður fyrir sér?

Ég ætla líka að leyfa mér að spyrja hv. þingmann Vinstri grænna hvort hann viti hver stefnan er með þessi mál og þá nefni ég t.d. samþættingu innanlands- og millilandaflugs í Hvassahrauni.