149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurningarnar. Já, þetta er góð hugleiðing um það hvort áralangt argaþras um það hvert flugvöllurinn eigi að fara endi síðan með því að hann fer aldrei. Þetta mál hefur verið í biðstöðu allt of lengi. Ég held að við þurfum að ýta á það að fyrir haustið verði komið í tillöguna sem hæstv. samgönguráðherra kemur með til þingsins einhver hugmynd, einhver tillaga að leið áfram. Við þurfum ekkert að vera með endanlega niðurstöðu strax í haust, en við þurfum alla vega að hafa þá sameiginlegu sýn að við ætlum að komast að þeirri niðurstöðu.

Samspilið við markmið í loftslagsmálum og hönnun samgöngukerfisins í heild sinni, hvort sem um er að ræða flugvöll, almenningssamgöngur milli landshluta eða hvað það nú heitir, skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna var svo leiðinlegt að upphafleg tillaga ráðherra skyldi ekki hafa verið metin með tilliti til áhrifa á loftslagsmál, vegna þess að það mat er grunnurinn undir því að við getum sagt hvaða áhrif niðurgreiðsla á almenningssamgöngum milli landshluta hefur, hvaða áhrif niðurgreiðsla á flugsamgöngum hefur, hvaða áhrif uppbygging betri vega, sem mögulega leiða til hærri hraða, hefur. Við þurfum að hafa þetta allt fyrir framan okkur til að þessar grundvallaráætlanir tali saman.