149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

[10:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil ræða við hæstv. menntamálaráðherra um frumvarp sem er til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem ég sit í, það er frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir að koma fram með þetta frumvarp og bregðast með jafn skjótum hætti við ákalli því sem varð vegna #metoo-hreyfingarinnar innan íþróttahreyfingarinnar, og ganga hreint til verks með að tryggja að við getum öll búið bæði börnunum okkar og okkur sjálfum sem kjósum að taka þátt í íþróttastarfi öruggt umhverfi fyrir hvers kyns einelti, áreitni og ofbeldi. Mér þykir það mjög mikilvægt framfaraskref í þessa átt og vildi halda því til haga hér í upphafi.

Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Sú fyrsta snýr að öðru sem mér þykir mikið framfaraskref í þessu frumvarpi. Það er að nú er gerð krafa um að þeir sem starfa í íþróttastarfi megi ekki hafa gerst brotlegir við XXIII. kafla almennra hegningarlaga, þ.e. kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, og sömuleiðis við lög um meðferð ávana- og fíkniefna. Hvað það varðar hefur verið mikið til umræðu aðgengi að sakaskrám og hvernig því skuli best háttað til að tryggja að allir þeir sem starfa á þessum vettvangi hafi ekki gerst brotlegir við lög sem er líka m.a. ætlað að vernda börn.

Hvað þann kafla varðar rak ég augun í eitt sem mér þætti eðlilegt að þarna væri líka til staðar; skilyrði um að viðkomandi mætti ekki hafa gerst brotlegur við líkamsmeiðingakafla almennra hegningarlaga, þ.e. alvarlegar líkamsmeiðingar, jafnvel manndráp. Ég velti fyrir mér þegar við skoðum hvernig staðið skuli að því að athuga sakaskrár; ef maður á að senda inn sakavottorð og svo fær maður annaðhvort rautt og grænt ljós til baka, hvort ekki þyrfti líka að setja inn ákvæði (Forseti hringir.) um þessi alvarlegu brot gegn friðhelgi manna.