149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Það er ánægjulegt að greina frá því að bæði íþróttahreyfingin og æskulýðshreyfingin brugðust mjög hratt og örugglega við og við náðum á tiltölulega stuttum tíma að fara yfir stöðuna og sjá hver vandinn væri. Það er talsvert ákall eftir því og sér í lagi að fá hlutlausan aðila sem getur mögulega miðlað málum. Varðandi lagaákvæði sem gilda um samskiptaráðgjafann tökum við fyrirmyndina líka frá íþróttalögum og göngum eins langt og við mögulega getum hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Mér finnst sú athugasemd sem kemur fram í máli hv. þingmanns um líkamsmeiðingar og annað slíkt eitthvað sem við ættum að skoða í nefndinni. Við höfum fengið mjög jákvæða umsögn og talsvert góðar athugasemdir við frumvarpið þannig að ég tel að við gætum skoðað það betur.

Virðulegur forseti. Það sem er mikilvægast og mjög ánægjulegt er að þegar upp kemur hreyfing á borð við #églíka á Íslandi bregst grasrótin hratt og örugglega við. Þarna tel ég að samspil hennar og stjórnvalda og löggjafans sé að takast. Mjög vel hefur tekist til og ég vil hrósa þeim íþróttakonum sem náðu að móta samstöðu og því að við séum komin með útkomu.