149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

[10:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög gagnleg ábending sem kemur hér fram varðandi lagasetningu er viðkemur börnum og ungmennum, hvernig við aukum samráðið og bætum það. Ég hefði talið að nefndin sem við skipuðum hefði verið í sambandi við fulltrúa umboðsmanns barna og ég fagna því að allsherjar- og menntamálanefnd ætli að fá umsögn hans um frumvarpið því að það skiptir máli.

Varðandi það hvernig við getum unnið að þessu og bætt þetta fyrirkomulag er það hreinlega að hafa umboðsmann barna oftar með í ráðum og setja það inn í verkferilinn þegar við erum að undirbúa frumvörp. Ég held að ekki eigi að vera erfitt að sinna því og að það sé til bóta. Þessi löggjöf nær náttúrlega til þeirra. Mikil vinna fór í þetta á vegum íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar og æskulýðshreyfingin er náttúrlega í mjög miklum tengslum við ungt fólk og börn. En ég fagna því að nefndin ætli að taka þetta til sín.