149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

málefni ferðaþjónustu.

[10:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að nýta þetta tækifæri til að vekja enn og aftur athygli þingheims á því hversu stór atvinnugrein ferðaþjónustan á Íslandi er orðin. Hún er fyrir löngu orðin stærsta útflutningsgrein okkar. Að sama skapi hefur ferðaþjónustan skapað mikinn fjölda starfa en samkvæmt tölum Hagstofunnar voru um 24.200 manns starfandi í ferðaþjónustu og tengdum greinum árið 2017.

Nú er staðan hins vegar sú að ýmsar ytri aðstæður hafa gert ferðaþjónustufyrirtækjum æ erfiðara fyrir í almennum rekstri og erlendri samkeppni. Þannig hefur gengi íslensku krónunnar valdið miklum vandræðum en einnig aðrir þættir, svo sem hækkun byggingarvísitölu, hár launakostnaður og hærri fjármagnskostnaður. Þessar aðstæður hafa haft óheppileg áhrif á samkeppnisstöðu Íslands. Ótrygg staða bæði innlendra og erlendra flugfélaga hefur svo bæst ofan á þetta.

Ég spyr: Hvað ætla stjórnvöld að gera til að stuðla að því að Ísland verði samkeppnishæft til lengri tíma?

Að óbreyttu er fyrirséð fækkun ferðamanna á árinu 2019. Fækkun segir kannski ekki allt en við höfum heldur ekki náð heilsársferðaþjónustu um allt land og dvalartími hefur verið að styttast, sem þýðir að ferðamenn fara síður út fyrir suðvesturhornið. Í ofanálag er sú litla aukning sem gert er ráð fyrir á árinu yfir sumartímann þegar fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins eru nú þegar við þolmörk.

Telur hæstv. ráðherra þörf fyrir að bregðast við því á einhvern hátt, t.d. með aðgerðum til að styðja við ferðaþjónustu úti á landi og með opnun fleiri fluggátta? Telur hæstv. ráðherra ekki ástæðu til að setja aukinn kraft í erlendra markaðssetningu, til að mynda með áherslu á að sækja á áhugaverð markaðssvæði þar sem við höfum verið að missa hlutdeild, t.d. í Þýskalandi? Staðreyndin er að á sama tíma og ríkið hefur dregið nokkuð úr framlagi til markaðssetningar eru fyrirtæki að draga úr framlögum sínum vegna fyrirsjáanlegs samdráttar, sem getur orðið til þess að það verði mjög litlir peningar til markaðssetningar á þessu ári.