149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

málefni ferðaþjónustu.

[10:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil byrja á því að taka undir með henni að þessi atvinnugrein er auðvitað orðin sú stærsta, mikil gerjun og umhverfi hennar, hvort sem það er ytra umhverfi eða annað, breytist frekar hratt og við þurfum öll að vera á tánum. Ég mun leita leiða til að koma með fleiri mál hingað inn í þingið, hvort sem það eru skýrslur eða annað sem við erum að vinna að, til að fá meiri umræðu í þinginu um þessi mál.

Það er alveg rétt að við sjáum fram á einhvern samdrátt. Isavia hafði spáð mikilli fækkun í febrúar, mars og apríl, en ekki janúar. Síðan kom í ljós að töluverð fækkun varð í janúar. Mér finnst það m.a. sýna að við þurfum einfaldlega betri og ítarlegri upplýsingar um þessi mál. Við þyrftum að geta sagt eftir einhvern tíma að þessi atvinnugrein byggi við þær aðstæður að geta sótt ítarlegri og áreiðanlegri gögn til að reyna að sjá fram í tímann hvað er að fara að gerast. Við höfum gert mjög margt með mælaborði ferðaþjónustunnar og öðru, en við erum ekki búin að gera það sem þarf að gera.

Hvað varðar samkeppnishæfni og hvernig ég telji að við þurfum að gæta að henni myndi ég segja að lykilorðið væri gæði. Allt sem við gerum verður að vera til að efla og auka gæði íslenskrar ferðaþjónustu. Hvort sem það eru aðgerðir okkar til að styðja við atvinnugreinina eða það sem við gerum til að byggja upp innviði á áfangastöðum eða annað þarf lykilorðið að vera gæði.

Við erum auðvitað með flugþróunarsjóð og við sjáum að hann virkar. Fólk fyrir norðan segir að það sé beinlínis vegna hans sem tókst að koma á flugi þangað. Það er orðið frekar stöðugt. Við myndum auðvitað vilja sjá meira af því. Það eru svæði langt þar í kring sem njóta góðs af þessu. Áfangastaðaáætlun er síðan annar þáttur sem er (Forseti hringir.) algjört lykilatriði og við höfum sett verulega fjármuni í hana og það kallar líka á að öll svæðin, sveitarfélög, markaðsstofurnar og annað, taki þátt í því. Svo (Forseti hringir.) kem ég í seinna svari að markaðssetningu og forgangsröðun fjármuna.