149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

málefni ferðaþjónustu.

[10:43]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þó að það séu blikur á lofti er auðvitað fjarri því að allt sé svart í ferðaþjónustunni og mikilvægt að hafa í huga að þó að óvissutímar séu um þessar mundir er ekkert sem bendir til annars en bjartrar framtíðar íslenskrar ferðaþjónustu. En til að sú framtíðarsýn geti haldist og orðið að raunveruleika skiptir máli að við bregðumst hratt og vel við og setjum einmitt kraft í rannsóknir, í uppbyggingu innviða, vöruþróun og nýsköpun, gæði þjónustunnar eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og síðast en ekki síst markaðssetninguna.

Við erum með mikla rannsóknaumgjörð í kringum sjávarútveginn sem hefur skilað okkur stöðugum og flottum atvinnuvegi þó að vissulega séu vandamál þar líka. Þar er ákvarðanataka byggð á tölum og þekkingu á umhverfinu sem því miður skortir áþreifanlega á gagnvart ferðaþjónustunni. Sömuleiðis virðist skorta mjög á yfirsýn og hagvísa ferðaþjónustunnar, þar á meðal hjá Seðlabanka Íslands. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að bætt verði úr því á árinu með beinum aðgerðum?