149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

málefni ferðaþjónustu.

[10:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Til að ljúka því sem ég byrjaði á áðan varðandi áfangastaðaáætlanirnar langar mig bara að koma því á framfæri að þetta er stærsta einstaka aðgerð stjórnvalda í formi fjármuna í að styðja við það hvernig svæðin um allt land vilja byggja sig upp, þ.e. að það sé ekki ákveðið á Skúlagötu 4 hvernig ferðamannastaður eða áfangastaður hver landshluti vill vera heldur að þeir ákveði það sjálfir. Það þarf að gera með fyrirtækjum á svæðinu, íbúum, sveitarfélögum, sveitarstjórnarfulltrúum o.s.frv.

Þegar kemur að forgangsröðun fjármuna, af því að hér er spurt um markaðssetningu annars vegar og önnur verkefni hins vegar, mun ég beita mér fyrir því að fundnir verði frekari fjármunir í rannsóknir vegna þess að það undirbyggir betri ákvarðanatöku. Það hjálpar okkur að ná þessari yfirsýn, segir okkur hvar við erum vel stödd og hvar við þurfum að bæta í. Álagsmatið sem verið er að vinna er algjört lykilatriði í þessu. Nú erum við í fasa tvö í því, þ.e. við erum að gildissetja þá vísa sem búið er að finna. Þetta segir okkur nákvæmlega hvar flöskuhálsarnir eru, hvar við erum á góðum stað og hvar þarf að bæta í. Þá getum við líka tekið upplýsta ákvörðun um hvað kostar að laga það sem þarf að laga. Erum við tilbúin að fara í það eða ætlum við (Forseti hringir.) þá að segja: Nei, nú er komið nóg, hér þarf frekari stýringu og við viljum beina fólki annað?