149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

staða iðnnáms.

[10:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og að vekja máls á mikilvægi menntunar í landinu. Það er alveg ljóst er varðar kennaranámið að við erum nú að fara að ráðast í mjög umfangsmiklar aðgerðir til að auka aðsókn og auka mikilvægi menntunar í landinu. Við munum líklega kynna aðgerðaáætlun í byrjun mars og við höfum verið í miklu samstarfi við kennaraforystuna, menntavísindasvið og Háskólann á Akureyri. Það er ekki bara Ísland sem þarf að fást við þessa áskorun, það eru líka fleiri ríki. Ég fundaði með menntamálaráðherra Noregs í gær og við höfum verið að bera saman bækur okkar um þá staðreynd að kennsla er mikilvægasta starfið í okkar samfélagi. Við erum svo sannarlega, þessi ríkisstjórn, að taka til hvað það varðar og höfum mikinn metnað til að uppfylla það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

Hv. þingmaður spyr um iðnnema og hvort iðnnemar geti átt von á því að vera í launuðu starfsnámi. Eins og hv. þingmaður líklega þekkir er það mjög mismunandi eftir iðngreinum hvernig starfsaðstaða þeirra er. Eitt af því sem við er að etja, og við erum í miklu samstarfi við Samtök iðnaðarins og fleiri aðila hvað það varðar, er að þessar aðstæður eru mjög mismunandi. Það þarf að samræma þær og það þarf að búa til meiri fyrirsjáanleika. Við höfum verið að setja þetta mál í forgang og við höfum verið að forgangsraða fjármunum, til að mynda með því að fella niður efnisgjöldin. Það ánægjulega er að við erum að sjá talsverða aukningu er varðar innritun í iðnnám sem hefur ekki verið í talsvert langan tíma. Það eru jákvæð teikn á lofti og sérlega finnst mér jákvætt að hv. þingmaður sýni þessu máli svona mikinn áhuga.