149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

matvælaverð.

[10:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Í gær birtist verðkönnun sem Alþýðusambandið lét vinna um samanburð á verðlagi neysluvara milli Norðurlandanna. Niðurstöðurnar eru sláandi þó að þær komi kannski ekki sérlega á óvart. Niðurstaðan sýndi að 67% verðmunur var á milli matarkörfunnar hér á Íslandi, þar sem hún var hæst, og í Helsinki, þar sem hún var lægst. Í samanburði við það Norðurlandanna sem dýrast var, Noreg, var matarkarfan hér engu að síður 40% hærri. Fyrir áhugasama má nefna að matarkarfan hér á landi var 60% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum Norðurlandanna sem eiga aðild að Evrópusambandinu, hvað sem menn vilja svo lesa í það.

Framkvæmdastjóri Bónuss kvartaði strax undan því að allt of mikið væri af landbúnaðarafurðum í þessari körfu og þess vegna væri samanburðurinn ekki sanngjarnt því að eins og allir vissu væru íslenskar landbúnaðarvörur þær dýrustu í heimi. Það kemur reyndar ekki á óvart því að þegar við skoðum samanburð hjá OECD-ríkjunum er enginn landbúnaður verndaður meira en sá íslenski. Því fylgir gríðarlegur kostnaður fyrir íslenskar fjölskyldur. Ætla má að fjögurra manna íslensk fjölskylda borgi að meðaltali um 60.000–70.000 kr. meira á mánuði fyrir matarkörfuna en sambærileg fjölskylda annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna spyr ég: Er hæstv. ráðherra ánægður með þann kostnað sem íslenska landbúnaðarkerfið hefur í för með sér fyrir neytendur? Og af því að ríkisstjórnin virðist vera að leita að einhverju útspili inn í kjaraviðræður spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra dottið í hug að taka upp hátt matvælaverð hér á landi, vegna verndarstefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaði, og breyta því sem innleggi í kjaraviðræður?