149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra.

[11:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ferðaþjónustan er orðin burðarás í íslensku atvinnulífi, skilar miklum tekjum og gjaldeyri. Það var ánægjulegt að heyra í ráðherra fyrr í morgun um þá miklu áherslu sem hún leggur á gæði við uppbyggingu þessarar þjónustu. Þannig er að ferðaþjónustan hvílir að ýmsu leyti á traustum grunni en að öðru leyti er hún enn að slíta barnsskónum sem atvinnugrein af þeirri stærð sem hún hefur vaxið upp í.

Meðal þeirra sem hafa mikla þýðingu fyrir gæði ferðaþjónustunnar eru leiðsögumenn. Nám í leiðsögufræðum stendur til boða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, í Menntaskólanum í Kópavogi og í Ferðamálaskóla Íslands. Ég vil beina, í þessari umferð, tveimur spurningum til hæstv. ráðherra:

Hefur ráðherra uppi áform um lögverndun á starfsheiti leiðsögumanna? Og í annan stað: Hefur ráðherra áform um að móta lágmarkskröfur varðandi nám í þessum fræðum sem yrðu þá undirstaða slíkrar lögverndunar?

Ég vil taka það fram að þessu máli hefur verið hreyft hér oftar, mun oftar á Alþingi. Við undirbúning þessarar fyrirspurnar rakst ég til að mynda á frumvarp þessa efnis sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson flutti ítrekað um árið.