149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra.

[11:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mér heyrist við hv. þingmaður vera sammála að mörgu leyti, þó kannski ekki alveg. Ég er alveg sammála því að liður í miklum gæðum íslenskrar ferðaþjónustu er að frekar auðvelt sé að nálgast íslenska leiðsögumenn og að fyrirtæki bjóði upp á slíka þjónustu. Við erum síðan hluti af EES-samstarfi þannig að ómögulegt væri fyrir okkur að banna einfaldlega leiðsögumönnum, hvort sem þeir eru menntaðir eða ekki, að koma hingað til lands og leiðsegja erlendum ferðamönnum. Við vitum að mjög margir Íslendingar sem fara til útlanda vilja helst hafa íslenskan leiðsögumann til að ganga með sér um miðborgir og segja frá. Þeir vilja hafa hann íslenskan. Þetta er eitthvað sem við eigum kannski ekki endilega að banna og fyrir utan það gætum við það ekki. En svo eru það einmitt líka, bara til að hnykkja aðeins á þessu varðandi löggildinguna, stundum svona einstaklingar sem eru kannski með bestu þekkinguna á staðháttum, kunna söguna, jafnvel að margar kynslóðir hafi verið á þessu landi og þekki hlutina vel. Það er mikil upplifun fyrir erlenda ferðamenn að fá að fylgja þeim. Þeir eru kannski ekki faglærðir en samt sem áður eru gæðin mikil og þeir uppfylla þær kröfur sem fyrirtæki ættu almennt að setja sér.