149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða um gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara. Ég vona reyndar líka að þessi umræða hjá okkur í dag skili einhverju inn í frekari umræðu um mikilvægi nýsköpunar, sem ég held að við getum öll verið sammála um.

Ég spurði ráðherra í tengslum við þessa umræðu: Hver er staða nýsköpunar á Íslandi í alþjóðlegum samanburði? Hvaða aðgerðir telur ráðherra nauðsynlegt að ráðast í til að bæta nýsköpunarumhverfi á Íslandi? Svo spurði ég út í þá staðreynd, sem við höfum lengi vitað af, að fjöldi íslenskra einkaleyfa hefur verið lítill í samanburði við önnur lönd. Það hefur gjarnan dregið okkur niður í alþjóðlegum samanburði þegar rætt er um nýsköpunarlandið Ísland. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að bregðast við með einhverjum hætti og þá hvernig.

Nýsköpun er einn af grunnþáttum stjórnarsáttmálans, enda kemur orðið fyrir í það minnsta 18 sinnum og í allflestum köflum stjórnarsáttmálans. Nýsköpun er líka mikilvæg alls staðar, bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu, hvort sem er í starfandi fyrirtækjum eða til þess að fjölga fyrirtækjum.

Ég held að við séum öll sammála um gildi nýsköpunar, en ég held við ættum öllu heldur að tala um nauðsyn. Nýsköpun er líka mjög fallegt orð, ég held að við getum öll verið sammála um það, en ég vonast til að við fáum eitthvað út úr því í dag hvernig nýsköpunarland við viljum vera, hvernig nýsköpunarumhverfi við viljum byggja á Íslandi.

Á vettvangi hæstv. ráðherra er unnin nýsköpunarstefna. Þess vegna finnst mér líka mikilvægt að taka umræðuna á þessum tímapunkti og vænti þess að það sem hér kemur fram geti orðið eitthvert fóður fyrir þá stefnu. Þrátt fyrir að við á Íslandi höfum sterkt atvinnulíf er það of fábreytt. Því þarf að breyta. Við þurfum fjölbreyttara atvinnulíf og fleiri sterkari stoðir. Efnahagur okkar má nefnilega aldrei byggja fyrst og fremst á einni atvinnugrein, vegna þess að við ætlum ekki að falla vegna falls einnar atvinnugreinar.

Ég tel mikilvægt að við förum vel yfir þetta mál og mikilvægi þess að hér sé mótuð nýsköpunarstefna sem byggir á sérstöðu Íslands. Ég held að nýsköpunarstefna Íslands geti aldrei orðið eins og nýsköpunarstefna Suður-Kóreu, Svíþjóðar eða Singapúr — nú nefni ég þau lönd sem standa fremst hvað varðar nýsköpun — og hefur aldrei verið eins, því að við eigum að byggja á sérstöðunni. En við eigum auðvitað að horfa til þess sem reynst hefur vel, bæði hér og erlendis.

Ég vil líka nota tækifærið og fagna framtaki Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs því að það er auðvitað nauðsynlegt að atvinnulífið komi með okkur í þessa vinnu.

Mig langar að nefna hér sem dæmi ýmislegt sem gengið hefur vel hjá okkur. Við í Vestnorræna ráðinu heimsóttum um daginn ORF líftækni, frábært nýsköpunarfyrirtæki sem selur ótrúlega mikið af íslenskum snyrtivörum. Þetta er erfðatæknifyrirtæki. Það selur flugfélögum íslenskar snyrtivörur. Fyrirtækið hefur meira að segja selt svo mikið að það hefur aldrei áður gerst á breska markaðnum að nú er selt meira af vörum frá þeim en af áfengi og tóbaki um borð í breskum flugvélum. Þetta litla fyrirtæki byrjaði sem lítill sproti á frumkvöðlasetri. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið til í frumkvöðlasetrum á Íslandi. Ég fékk tölur um að 30 stærstu fyrirtækin sem starfað hafa á frumkvöðlasetrum hafi verið með veltu upp á tæpa 8 milljarða árið 2016. Þau eru með 390 starfsmenn þar sem kynjahlutfallið er mjög jafnt. Frá stofnun hafa þau fengið styrki upp á 1,8 milljarða, en á sama tíma hafa um 7 milljarðar komið frá einkafjárfestum. Það held ég að ætti að vera okkar nýja stóriðjustefna.

Klasar hafa einnig sannað gildi sitt og ég vænti þess að við ræðum um mikilvægi klasa og klasastefnu hér í dag. Þá vil ég leggja áherslu á að þrátt fyrir að Ísland sé eyja erum við ekkert eyland í þessari umræðu.

Það að vera hluti af EES, vera með EES-samningnum og vera hluti af því stóra markaðssvæði, skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar kemur að þessum málum, bæði hvað varðar aðgang að markaði, aðgang að fjármögnun og ekki síst samstarf um rannsóknir og þróun á vettvangi Evrópusambandsins. Ég held reyndar að við ættum að horfa víðar en bara til Evrópusambandsins, fríverslunarsamningar og samstarf okkar við önnur ríki skipta miklu máli þegar við ætlum að byggja hér upp öflugt atvinnulíf.

Sjávarútvegurinn hefur staðið sig með eindæmum vel og ég held að við á Íslandi getum státað af því að vera með fremstu fyrirtæki á vettvangi sjávarútvegs og því höfum við fulla burði til að vera einhvers konar Sílikondalur sjávarútvegsins í heiminum.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því að atvinnustefna okkar Íslendinga þarf í auknum mæli að snúa að því að nýta ekki náttúruauðlindir. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess óþrjótandi hugarafls sem finnst hjá okkur, fólkinu sem byggir þetta land. Það getur verið alls konar.

Virðulegur forseti. Mig langaði að koma að fullt af atriðum, sem ég verð þá að koma að í næstu ræðu. En við skulum átta okkur á því að fjórða iðnbyltingin er í fullu fjöri og við Íslendingar eigum og ætlum að vera með í því fjöri.