149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:14]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni.

Nýsköpun er einfaldlega eitt stærsta hagsmunamál framtíðarinnar. Það er þannig að samfélög sem vilja vera samkeppnishæf við fremstu ríki heims mega ekki líta á nýsköpun sem eitthvað sem er notalegt að hafa heldur eitthvað sem er nauðsynlegt að hafa. Stundum ber á því í umræðu um nýsköpun að það sé eitthvað sem er svona frekar notalegt og ánægjulegt að hafa til hliðar en ekki eitthvað sem er okkur lífsnauðsynlegt. Með öðrum orðum, nýsköpun á ekki að vera álitin eitthvert hliðarverkefni heldur verkefni sem ber að setja í forgang. Það er það sem við erum að reyna að gera.

Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar þjóðarinnar og nýsköpun í atvinnulífinu getur átt stóran þátt í að leysa þær samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, þá þannig að nýsköpun stuðli að því að við finnum lausnir á samfélagslegum áskorunum, en sömuleiðis að verðmætasköpun sem henni fylgir geri okkur kleift að standa undir þeim samfélagslegu áskorunum sem fram undan eru.

Stjórnvöld hafa á ýmsan hátt beitt sér fyrir því að auka veg nýsköpunar í landinu, m.a. með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð og auknum skattendurgreiðslum til fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. En við gerum okkur líka grein fyrir því að betur má ef duga skal ef við ætlum að finna okkur stað meðal fremstu þjóða á þessum vettvangi. Í því skyni er nú unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland á vegum ráðuneytisins með þverpólitískum samráðshópi.

Þegar nýsköpun hér á landi er skoðuð í alþjóðlegum samanburði má fyrst nefna að við eigum í góðu samstarfi við þjóðir beggja vegna Atlantshafsins um rannsóknir og þróun. Okkur hefur gengið vel að sækja styrki í erlenda samkeppnissjóði.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að áhugi atvinnulífsins, frumkvæði, hugmyndir og aðgerðir atvinnulífsins skipta mjög miklu máli og er algjört lykilatriði. Ég fagna því mjög. Ég átti síðast fund með Viðskiptaráði nú í morgun, einmitt um þær tillögur sem það lagði fram.

Þegar rýnt er í tölfræði nýsköpunar má sjá að á árinu 2017 var 2,13% af vergri þjóðarframleiðslu varið í rannsóknir og þróun hér á landi og þar erum við aðeins yfir meðaltali Evrópuríkja. Á vettvangi Vísinda- og tækniráðs hefur þó verið sett það metnaðarfulla markmið að útgjöld til rannsókna og þróunar nái 3% af vergri þjóðarframleiðslu.

Annar mælikvarði á nýsköpunarframmistöðu okkar er svonefndur Global Innovation Index sem gefinn er út árlega og mælir nýsköpunarvirkni 126 ríkja. Á síðasta ári var Ísland í 23. sæti á þeim lista. Þar erum við í félagsskap með Eistlandi í 24. sæti og Nýja-Sjálandi í 22. sæti. Efstu sætin á þeim lista skipa hins vegar lönd sem við berum okkur gjarnan saman við og ættum að vilja geta gert í þessu samhengi líka, svo sem Sviss, Holland, Svíþjóð, Bretland, Bandaríkin, Finnland, Danmörk og Írland. Tölum sem byggja á erlendum greiningum má þó taka með nokkrum fyrirvara, sérstaklega í litlu hagkerfi eins og okkar þar sem einstakar breytingar geta haft mikil áhrif. Það er þó umhugsunarvert að á Global Innovation Index höfum við fallið um tíu sæti milli áranna 2017 og 2018, þ.e. úr 13. sæti í það 23.

Þegar rýnt er í tölurnar sem þar liggja að baki má sjá að við stöndum okkur vel á ýmsum sviðum og má gleðjast yfir að við skorum mjög hátt hvað varðar almenna innviði og stjórnmálalega umgjörð. Hins vegar kemur einnig fram að það sem kalla má skilvirkni nýsköpunar hér á landi minnkar heldur milli ára. Það er vísbending um að það starf og það fjármagn sem við beinum í nýsköpun skili sér einfaldlega ekki nægilega vel í fyrirtækjum í vexti og ekki nógu vel í útflutningi á afurðum sem byggja á hugviti og nýsköpun. Við erum m.a. ekki að skora nógu hátt í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að skráningum á einkaleyfum. Og það er nokkuð sem hv. þingmaður hefur nú þegar sett á dagskrá hér í þinginu og er málefni sem ég held að við ættum að reyna að gera enn betur í. Ég hef hug á að vinna að einhvers konar sterkari umgjörð utan um það hvað varðar regluverkið á næstu misserum. Að mörgu leyti snýst þetta nefnilega líka um viðhorf okkar og þekkingu á þessum málum hér á landi.

Svipaðar niðurstöður höfum við verið að í sjá fleiri greiningum, svo sem í nýlegri norrænni rannsókn á stuðningskerfi nýsköpunar og í skýrslu McKinseys frá árinu 2012. Þær greiningar eru að mínu mati ábending um að við þurfum að fara vel yfir hvernig við verjum fjármagni til nýsköpunar hér á landi, vegna þess að í stuðningi hins opinbera í nýsköpun eru ótrúlega háar fjárhæðir. Ég hef alltaf sagt að við þurfum að ná betri yfirsýn yfir það í hvað þessir peningar fara. Eru þeir allir á réttum stað? Eru þeir að vinna það gagn sem við viljum að þeir vinni? Það er einn af þeim stóru meginþáttum í þessari nýsköpunarstefnu, að þar er einmitt verið að skoða það. Í kjölfarið munum við þá væntanlega fara í einhverjar breytingar á því umhverfi til að ná betri niðurstöðu.

Við viljum hlúa að því frjóa umhverfi sem fyrirfinnst meðal frumkvöðla í atvinnulífinu og meðal þeirra sem stunda rannsóknir, þróun og skapandi greinar og við þurfum að beita okkur fyrir vexti slíkra sprota á alþjóðlegum mörkuðum.