149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og að ráðherra skuli taka þátt í henni. Við höfum séð mjög mörg dæmi undanfarin 20 ár um það hvert nýsköpun getur fleytt okkur. Við höfum séð fyrirtæki eins og Marel, Völku, Skagann, 3X og Kerisis spretta upp. Þau eiga eitt sameiginlegt, öll þessi fyrirtæki, þau hafa sprottið upp af þekkingu Íslendinga á sjávarútvegi. Ég held að ég hafi heyrt í þingræðu í fyrrahaust spá um að sá iðnaður sem sprettur upp af sjávarútvegi muni innan skamms tíma skapa okkur meiri gjaldeyristekjur en sjávarútvegurinn sjálfur. Það er í sjálfu sér tvennt sem til þarf að koma til þess að nýsköpun blómstri og verði sá burðarás og þá sá sproti sem við viljum, þ.e. að ríkið taki utan um iðn- og tæknimenntun. Eins og fram kom í svörum menntamálaráðherra áðan er ekki alveg skýrt, t.d. hvað iðnnema varðar, hvort á að greiða þeim leið í gegnum skóla með því að greiða fyrir starfsnám, en það er eitt af því sem er nauðsynlegt.

Annað er að af kannski 100 sprotafyrirtækjum sem stofnuð eru lifa tíu og við eignumst eitt Marel. Þetta eru bara hver 100. Hvað þarf til? Það þarf að aðstoða fyrirtækin, t.d. með því að lækka tryggingagjöld eins og við Miðflokksmenn höfum lagt til en ríkisstjórnin hefur ekki hlustað. Það eru ýmis skilyrði sem ríkið getur skapað til að aðstoða við þá þróun vegna þess að auðvitað er hún farseðill okkar inn í framtíðina og trygging fyrir því að hér verði fjölbreyttara og gróskumeira atvinnulíf.