149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:27]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er ágæt umræða, það er gott að við tökum hana sem oftast. Ég þakka fyrir hana. Það er alltaf ánægjulegt að ræða um nýsköpun en það væri samt ánægjulegra ef meiri sýnilegur árangur væri í þeim málaflokki, við höfum öll hug á að bæta það, en allar þessar góðu hugmyndir verða að komast til framkvæmda.

Þegar við hugsum um samanburðinn við önnur lönd komum við ekki jafn vel út og við myndum óska okkur. Það er einkum í útflutningi, menntun og þroska hagkerfisins þar sem við skorum lágt á Global Innovation Index, þ.e. nýsköpunarkvarðanum. Því ber að fagna, og ég geri það, að Auðna-Tæknitorg tók til starfa nýlega til að stuðla að aukinni tækniyfirfærslu frá háskólasamfélaginu. Það er stórt skref sem hjálpa mun á öllum þessum veikleikasviðum.

En það er margt sem þarf að gera til að efla nýsköpun á Íslandi og hlúa að hagkerfinu okkar til að fleiri öflug fyrirtæki rúmist sem framleiða verðmætar vörur til útflutnings. Við eigum nokkur slík fyrirtæki en ég held að það komist fyrir nokkur í viðbót. Að bæta við fjórðu stoðinni í atvinnuvegi landsins hlýtur að byggjast á því að við búum til nýsköpunarstefnu, sem nú er verið að vinna vel að, en líka almennt iðnaðarstefnu sem fjallar um hvernig fyrirséð er að atvinnuvegirnir á Íslandi eigi að byggjast upp til framtíðar. Slík stefna gæti t.d. lagt áherslu á að auka nýsköpun í orkugeiranum til að Ísland geti verið fremst í heiminum í útbreiðslu endurnýjanlegra orkugjafa í tengslum við loftslagsbreytingar.

Við ættum sem land að setja okkur það markmið að flytja út loftslagslausnir til annarra landa vegna þess að við erum þrátt fyrir allt töluvert betur sett en flest lönd varðandi það. Við höfum ekki endalausar auðlindir til að vinna með varðandi atvinnuþróun og nýsköpun þannig að við verðum að vera mjög (Forseti hringir.) dugleg að velja markvisst hvað eigi að lifa og hvað eigi kannski síður að lifa, og skila okkur þeim niðurstöðum sem við viljum.