149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er afar brýn og þörf umræða og ber að þakka málshefjanda, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir það. Hér hafa komið fram mörg sjónarmið og góðar ábendingar og ég held að það sé án nokkurs vafa að nýsköpun er nauðsyn. Framtíð samfélags okkar byggist á því að okkur takist vel til við að byggja upp nýjar atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun, á hugviti og eru arðsamar og skapa verðmæt störf. Það er auðvitað gott að eiga sterkan sjávarútveg og öfluga ferðaþjónustu og reka stóriðnað af ýmsu tagi, en við þurfum miklu fjölbreyttara atvinnulíf. Það er eftir miklu að slægjast. Það nægir að nefna hið fræga fyrirtæki sem við erum öll stolt af, CCP, sem var selt á dögunum til Suður-Kóreu fyrir 46 milljarða íslenskra króna. Það gefur vísbendingu um það eftir hverju er að slægjast í nýsköpuninni.

Það sem er að mínu mati stærsta viðfangsefni okkar núna er að tryggja að þau nýsköpunarfyrirtæki sem verða til og ná tilteknum árangri geti vaxið og haldið sig sem lengst og helst alltaf á Íslandi. Þar skiptir mestu að almenn skilyrði til rekstrar slíkra fyrirtækja séu með þeim hætti að hægt sé að vera hér. Við blasir að fyrirtæki af því tagi þurfa fyrst og fremst stöðugleika og aðgengi að mörkuðum. (Forseti hringir.) Meðan við erum með blessaða krónuna og vaxtakjör eins og þau eru verður alla tíð mjög erfitt fyrir hin mörgu litlu fyrirtæki að verða stór og stolt.