149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir umræðuna. Það sem mig langar að tala um er nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur keyrt áfram stóran hluta af nýsköpun á Íslandi í gegnum fjárfestingar- og tækniþörf. Þar af leiðandi hefur hvatinn verið mikill þar. Hið sama hefur gerst nýverið í landbúnaðinum.

Icelandic Startups hefur í samstarfi við Íslenska sjávarklasann komið á fót svokölluðum viðskiptahraðli til sjávar og sveita og er þetta gert með fyrirtækjum og stofnunum, þ.e. í samstarfi við IKEA, Matarauð Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasann. Í morgun var t.d. kynningarfundur á þessum viðskiptahraðli til sjávar og sveita þar sem voru kynnt tvö ný fyrirtæki sem hafa sprottið upp úr matvælageiranum, Codland og Lava Seas.

Þetta er fyrsti viðskiptahraðallinn sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Viðskiptahraðlar eru svo sem ekki óþekktir á Íslandi, þeir hafa verið til í ferðamannaiðnaðinum og eins í orkugeiranum, að mér skilst, og eru mörg hundruð aðilar á hverju ári sem vilja nýta sér þessa hraðla.

Mig langar að nefna eitt gott dæmi um það sem nýsköpun getur gert. Það er fyrirtækið Heilsuprótein sem er í eigu KS og Mjólkursamsölunnar þar sem nýttar eru 50 milljónir lítra af mysu í um 350 tonn af próteini og bráðum 1,5 milljónir lítra af etanóli. Þarna er verið að nýta efni sem annars hefði farið í sjóinn þannig að þarna er líka verið að leysa ákveðið umhverfismál með miklu betri hætti en annars hefði verið. Það eru mjög mikil tækifæri í að fullvinna alls konar afurðir til sjávar og lands og má þar nefna þörunga og ýmis tækifæri í matvælavinnslu eins og ég kom inn á. (Forseti hringir.)

Það verður gaman að fylgjast með hvernig þessi viðskiptihraðall til sjávar og sveita mun vaxa á næstunni.