149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu þar sem mjög margt mikilvægt hefur komið fram, m.a. að við höfum mikla þörf fyrir nýsköpun í samfélaginu til að auka framleiðslu og fjölbreytni og byggja þannig undir áframhaldandi velferð í landinu. Til þess þurfum við að tryggja aðstæður til að nýsköpun blómstri og til að fjárfesting í nýsköpun skili afrakstri til samfélagsins. Hér þarf því þolinmæði.

Nú er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og ég er svo heppin að fá að taka þátt í þeirri vinnu og höfum við miklar væntingar til þess ferlis sem þar er í gangi. Hvetjandi umhverfi fyrir nýsköpun er margþætt. Skólakerfið allt frá leikskóla til hæstu gráðu háskóla er í lykilhlutverki eins og nokkrir þingmenn hér hafa farið yfir. Þar skiptir góð grunnmenntun öllu máli, auk tækifæra til að prófa fjölbreytt viðfangsefni og nálægð við atvinnulíf. Þeir sem hljóta góða grunnmenntun geta tileinkað sér tækniþekkingu, þekkingu á forritun, líftækni og ótal margt fleira og tengt saman greinar.

Við megum aldrei gleyma því heldur að grunnur forritunar er tungumálið stærðfræði og þekking á rökhugsun en ekki öfugt. Nýsköpun getur sprottið úr öllum geirum samfélagsins, rótgrónum atvinnuvegum og opinbera geiranum. Hún byggir á því að fólk með frjóa hugsun og góða menntun kemur auga á ný tækifæri.

Ein af stóru áskorununum við mótun nýsköpunarstefnu er að tryggja samspil alls landsins við nýsköpun, fólks, atvinnulífs og náttúrulegra auðlinda. Nýsköpun er ekki einangrað fyrirbæri, nýsköpun fer fram í sambúð en ekki fjarbúð atvinnulífs og þekkingar, (Forseti hringir.) staðbundinnar og alþjóðlegrar þekkingar.