149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og öllum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem ég held að hafi verið mjög gagnleg og málefnaleg. Mig langar líka að nefna hér að ég held að það sé mikilvægt að við horfum til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja og hvernig við getum unnið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og notað þau í hvatakerfi okkar þegar kemur að nýsköpunarumhverfinu. Þegar við ræðum hvatana kom ráðherra inn á það, og við þekkjum það vel hér, að við vorum að hækka endurgreiðsluþakið svokallaða til rannsókna og þróunar og við ýttum enn frekar undir fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég held að þetta séu mikilvægir hvatar. Við þurfum samt að huga vel að því hver næstu skref verða. Er rétt að afnema þakið alveg eða eigum við frekar að huga að hækkun hlutfallsins? Hvernig er fjármununum best varið hvað þetta varðar?

Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni sem kom inn á menntakerfið sem aldrei er hægt að taka út úr umræðunni um nýsköpun og þarf alltaf að vera forsenda þess og eins það sem kom hér fram um grunnrannsóknir. Þó að við séum hér fyrst og fremst að horfa á hagnýtingargildi og nýsköpun eru grunnrannsóknir alltaf mikilvægur hlutur af því og þá spilar menntakerfið okkar og háskólaumhverfið mjög stóran hlut.

Við skulum líka muna eftir því að stærstu fyrirtæki heimsins í dag voru vart til fyrir 10–15 árum þannig að við gætum verið að tala um að stærstu fyrirtæki á Íslandi væru að gera eitthvað sem við vitum ekki einu sinni í dag hvað er.

Margt er vel gert, en það er margt sem má gera betur. Þá held ég að við þurfum fyrst og fremst að horfa til framtaksfjárfesta og hvernig við getum stuðlað að og byggt frekar undir framtaksfjárfestingar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um sérfræðiþekkinguna og sérstöðu Íslands. Horfum sérstaklega til þess. Sjávarútvegurinn hefur gert ótrúlega hluti og við eigum að byggja á því. Þá langar mig líka að nefna norðurslóðamál, hvaða tækifæri liggja hjá Íslandi í að vera miðstöð þekkingar og nýsköpunar (Forseti hringir.) á sviði norðurslóðamála.