149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mig langaði að nýta þessar tvær mínútur í að draga nokkra hluti saman og bregðast við því sem ég get komið að í minni seinni ræðu. Við þurfum sem sagt að einbeita okkur að því að gera stuðningsumhverfi skilvirkara, minnka flækjustig og auka samstarf milli þeirra aðila sem mynda vistkerfi nýsköpunar hér á landi. Hér erum við m.a. að ræða um aukið samstarf milli opinberra aðila og fjárfesta í einkageiranum, sem og aukið samstarf við erlenda fjárfesta og sjóði sem og að tengja betur saman háskóla og atvinnulíf.

Hér er oft rætt um óþrjótandi hugvit annars vegar og auðlindir hins vegar og oft auðvitað saman en ég vildi leggja áherslu á að samspilið hér er mikilvægt og þetta hangir algjörlega saman. Það er ekki annaðhvort eða heldur gengur þetta óþrjótandi hugvit m.a. út á það að nýta þessar takmörkuðu auðlindir betur og betur, þ.e. gera meira úr því sama. Það skiptir auðvitað máli að öll almenn umgjörð sé hagfelld, regluverk sé skýrt, fyrirsjáanlegt og einfalt, að hér getum við gert betur, stjórnmálalegur stöðugleiki sé til staðar, heillandi samfélag, sem mér finnst nokkuð sem við ættum að gera meira út á, sérstaklega þegar kemur að erlendum sérfræðingum, t.d. eru ekki mörg lönd í heiminum þar sem er eins gott að samhæfa vinnu og fjölskyldulíf. Fyrir ungar konur sem vilja fara í nýsköpun eru ekki mörg lönd í heiminum, ef nokkur, þar sem jafn auðvelt er að vera kona. Ég held að þetta séu atriði sem við tökum sem of sjálfsögðum hlut en þurfum svolítið að nota sem hluta af okkar ásýnd eða ímynd og koma því vel á framfæri.

Stefnan á að líta dagsins ljós í maí og þess vegna er rétt röð að klára hana og fara svo í þessar aðgerðir.

Hugverkavernd er annað atriði sem mér finnst skipta máli. Hún þarf að vera sterk, menntakerfi gott eins og hér var komið inn á. Þegar rætt er um Sílikondal er verið að vísa til þess hvað við þurfum að fá hér. Við þurfum (Forseti hringir.) líka okkar klasa. Við erum auðvitað með marga sterkar klasa, sjávarútvegs-, orku-, ferðaþjónustu-, tækniklasa o.s.frv., (Forseti hringir.) en það er í miklu nánara samstarfi háskólasamfélags, frumkvöðla og atvinnulífs þar sem allt verður til. Þess vegna verð ég að taka undir með orðum hv. þingmanns (Forseti hringir.) um fjarbúð og sambúð, mér finnst það fanga umræðuna mjög vel. Við erum í of mikilli fjarbúð, okkur vantar meiri sambúð.