149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[11:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp sem talsmaður Miðflokksins í þessari lokaumræðu flokkanna vegna samgönguáætlunar, til fimm ára annars vegar og 15 ára hins vegar. Mig langar til að tala um þessi mál á almennum nótum og þá nálgun sem hér er tekin. Ég ætla ekki að fara ofan í smáatriði tillögunnar, hún hefur verið rædd í þaula undanfarna tvo daga og ég kom flestum mínum sjónarmiðum á framfæri í fyrri ræðu. En mig langar að taka umræðu um stóru myndina.

Fyrst vil ég fagna þeirri undirliggjandi prinsippákvörðun sem tekin er með þeirri nálgun sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans um að stórátaks sé þörf hvað framkvæmdir varðar, sérstaklega á vegakerfinu. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með umræðum hér síðustu tvo daga að þingmenn allra flokka, held ég að ég leyfi mér að segja, hafa sennilega aldrei verið jafn sammála um nauðsyn þess að grípa þurfi til stórátaks í samgöngumálum. Menn greinir á um hvernig skuli fjármagna aðgerðirnar, en þörfin liggur fyrir og sá sparnaður í slysum, tíma og óþægindum sem hljótast af lélegu samgöngukerfi er margfaldur á við þann kostnað sem fara þarf í til að laga kerfið stórlega.

Ég gagnrýndi strax í fyrravor og sagði að mér þætti lítið til þeirra upphæða koma sem eyrnamerktar væru til samgöngumála og uppbyggingar á vegakerfinu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til fimm ára. Þar er ramminn settur og við sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd erum í þeirri stöðu að okkur ber hreinlega skylda til að leita leiða til að komast nær því marki sem við virðumst í dag sem betur fer öll vera sammála um að við þurfum að komast að. Það eru algerlega óboðleg skilaboð fyrir okkur að færa kjósendum okkar, fólkinu í landinu, að stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbrautin, Suðurlandsvegurinn á Selfoss, Vesturlandsvegurinn upp í Borgarnes, verði ókláraðar næstu 15–20 árin. Það er ekki boðleg niðurstaða að sáralítið verði um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á þessu sama tímabili, að stofnvegakerfi Vestfjarða verði enn að hluta til malar- og moldarvegir eftir 15–20 ár.

Þess vegna er ég svo ánægður með að í nefndinni hafi náðst að meginhluta sátt um að við verðum að ganga til þess verkefnis að finna aukið fjármagn til samgönguverkefna og sú leið sem verið hefur uppi á borðum og mest rædd og mest kynnt í nefndinni er, eins og við þekkjum hér öll, svokölluð veggjöld, flýtigjöld, notendagjöld eða hvaða nafni sem menn vilja kalla þá gjaldtöku. Síðan þegar við förum að ræða útfærsluna núna á vorþinginu þurfum við að skoða hvort forsendur séu til að setja eitthvað inn sem stofnfjárframlag eða eiginfjárframlag í það opinbera hlutafélag sem haldið gæti á þessum verkefnum, stofnfjárframlag sem kæmi þá til úr umbreytingu ríkiseigna, t.d. sölu Íslandsbanka þegar hún gengur í gegn.

Það eru fleiri eignir ríkisins sem horfa mætti til að gengju inn sem eiginfjárframlag eða stofnfjárframlag í svona verkefni. Jafnframt verðum við að horfa til þess hagræðis sem af því fæst, t.d. varðandi slys, annars staðar í ríkisrekstrinum, að fært sé að líta til þess að það verði hugsanlega notað til að styðja við þessi framkvæmdaplön. Og mjög mikilvægt atriði í þessu öllu er, eins og oft hefur komið fram, að menn stigi skref til baka gegn aðgerðum eins og almennri skattheimtu og almennum gjöldum á ökutæki og umferð.

Notendurnir fá býsna mikið með bættum samgöngum hvað varðar tímasparnað, umferðaröryggi, eldsneytissparnað og fleira. Ég lít þannig á að við þurfum að ramma inn þessa vinnu vorsins varðandi fjármögnunina þannig að veggjöldin komi ekki sem hrein viðbót á þegar skattpíndan hóp, sem eru ökumenn landsins og þau fyrirtæki sem stunda flutninga, heldur verði þetta útfært þannig að það styðji við þá prinsippákvörðun að bæta verulega í framkvæmdahlutann, komast í mark, ef svo má segja, á miklu skemmri tíma en annars hefði verið mögulegt og þannig að ekki sjái með verulegum hætti á heimilisbókhaldi heimilanna og að upplifun þeirra sem um vegina fara verði sannarlega sú að hagræðing og verðmæti felist í þessari breyttu nálgun.

Þetta var það sem ég vildi segja um vegamálin og þá miklu fjármögnunarumræðu sem átt hefur sér stað hér síðustu tvo daga.

Mig langaði að fara í nokkrum orðum inn á flugmálin. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með það hvernig nálgunin er á flugmálin í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þau tengjast annars vegar skýrslu hóps sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson fór fyrir og hins vegar umræðu um niðurgreiðslu innanlandsflugs sem fram kom nú nýverið. Ég held að flestir séu sammála um að við þurfum að finna leið til að líta á innanlandsflugið sem almenningssamgöngur, eins og strætó og rútuferðirnar sem við höfum þekkt áratugum saman. En hvað flugið varðar er kannski mikilvægast að horft sé til þess að Isavia, Keflavíkurflugvöllur, taki yfir viðhald og uppbyggingu varaflugvallakerfisins innan lands sem eru Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. Það mun skapa svigrúm til að styðja verulega við aðra flugvelli í flugvallakerfinu innan lands, hvort sem það er Bíldudalur, Ísafjörður, Höfn eða Vestmannaeyjar, hvar sem vera vill, því að það styður við innanlandsflugið, það styður við túrismann og uppbyggingu hans á fjarsvæðunum, það styður við kennsluflugið, við sjúkraflugið og þannig mætti lengi telja. Þarna eru því að verða mjög ánægjulegar breytingar.

Ég held að í öllu samhengi þessara breytinga þurfum við að horfa til þeirra tækifæra sem felast í þeim alþjóðasamningum sem við erum hluti af á flugsviðinu og þeim stofnunum sem við tengjumst í því umhverfi og leita leiða til að viðbótargjaldtaka verði sem sem allra minnst. Við leitum leiða til að fjármagna þessa hluti fyrst með aðild okkar að þessum samningum og stofnunum, með þeim hætti sem hægt er og fært er, áður en horft verður til frekari gjaldtöku á innanlandsflugið, því að það hefur verið í vandræðum undanfarið, eins og við þekkjum öll, og til allt of langs tíma.

Ég ítreka að við horfum á innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Þetta er auðvitað tenging margra svæða dreifbýlisins við höfuðborgina þar sem miðlæg þjónusta hefur verið byggð upp og þjónar því markmiði sem sett er í samgönguáætlun, að allir geti komist til höfuðborgarinnar á þremur og hálfri klukkustund með blönduðum ferðamáta.

Að endingu, af því að nú er tíminn að verða búinn, vil ég segja nokkur orð um fjármögnunina. Nú er mikil og áhugaverð vinna fram undan við að útfæra þetta. Markmið um stórauknar framkvæmdir liggur fyrir. Ég er sannfærður um að við þingmenn finnum leiðina að góðri blöndu þar sem flýtigjöld, umbreyting ríkiseigna, varfærni í almennri gjaldtöku og almenn, skynsamleg, lausnamiðuð nálgun skilur (Forseti hringir.) vegfarendur eftir í þeirri stöðu að njóta þess að hafa stórbætt vegakerfi án þess að finna mikið fyrir því í heimilisbókhaldinu.