149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er risastórt gat í samgönguáætlun eins og kom fram áðan í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar. Það er bráðnauðsynleg viðbót sem þarf að gerast og flýting á verkefnum sem þarf að eiga sér stað. Um það deilir enginn. Það er algjörlega augljóst að þessar framkvæmdir vantar í samgönguáætlun sem liggur fyrir að þurfi að samþykkja eins og hún er, í núverandi útgáfu.

Það hefur komið fram í umræðunni að þær framkvæmdir sem vantar séu einmitt heppilegar fyrir veggjöld. Ég tel það ekki vera tilviljun. Þarna er of mikil tilviljun til að hægt sé að útskýra það á þann hátt. Veggjöld eins og þau hafa verið sett fram hérna eru íþyngjandi því að allar spár sem við höfum fengið, allar greiningar sem við höfum fengið, sýna að meðalumferðartími kemur til með að lengjast þrátt fyrir að við förum út í þessar framkvæmdir. Það verður ekki tímasparnaður af því að fólk keyrir áfram sömu leiðina, það keyrir ekki styttri leið. Það er ekki eldsneytissparnaður af því að fólk er einmitt lengur að keyra frá A til Ö þrátt fyrir að farið verði í þessar samgöngubætur.

Það væri hægt að bera það saman við ef ekki neitt yrði gert en það er bara ekki í boði að gera ekki neitt.

Boðuð var stórsókn í samgöngumálum fyrir kosningar og í upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs, en afurðin í þessari samgönguáætlun er langt undir meðaltali aldarinnar. Stórsóknin sprakk síðan eins og dekk undir þessari samgönguáætlun og þótt samgönguráðherra og allir flokkar, t.d. í Suðurkjördæmi, hafi í upphafi kjörtímabils þvertekið fyrir að veggjöld ættu að vera á borðinu á nú að redda stórsókninni með skattahækkun í formi veggjalda.

Það hefur oft komið fram í umræðum á þinginu að veggjöld, eins og þau eru sett fram, eru skattahækkun. Það er ekki sambærilegt við t.d. Hvalfjarðargöng sem voru stytting. Venjulega leiðin var Hvalfjörður. Styttingin sem veggjöldin bjuggu til var göngin. Í þessari tillögu er t.d. Reykjanesbrautin venjulega leiðin. Það á að setja veggjöld á venjulegu leiðina, ekki á krókinn sem fólk þarf að taka. Þar er engin önnur stytting í boði. Á venjulegu leiðina eru sett aukagjöld og það er skattur.

Í stjórnarsáttmála er talað um hvernig eigi að fjármagna þessa svokölluðu stórsókn. Þar á að nota svigrúm til eignatekna en ef grannt er skoðað á að fara að setja á þjóðarsjóð. Í hann eiga að fara einhverjar eignatekjur, 10–20 milljarðar, að lágmarki 10 milljarðar á ári. Samkvæmt fjármálaáætlun á að niðurgreiða skuldir fyrir þessar sömu eignatekjur, óreglulegar eignatekjur, upp á um 120 milljarða á fjórum árum, Það eru um 30 milljarðar á ári. Þar eru farnar allar arðgreiðslurnar sem gert er ráð fyrir. Þar er þjóðarsjóðurinn að auki. Svo á líka að fjármagna samgönguáætlunina með eignatekjum. Það er búið að margtelja þessar eignatekjur á einhvern hátt.

Þegar verið er að gagnrýna að það eigi að nota veiðigjöld og ýmislegt svoleiðis í allar lausnir — það er ekki enn búið að gera það, það er búið að taka það af þannig að það er ekki einu sinni hægt að nota það tvisvar, ekki einu sinni einu sinni — má fólk líka hugsa um að hérna er verið að margtelja eignatekjurnar.

Ég hef farið dálítið vel yfir það sem ég vil kalla innviðaskuld. Innviðaskuldin varð, eins og bankahrunið, til við fall og endurreisn bankanna. Það þurfti að taka lán fyrir endurreisn bankanna og það þurfti að draga saman á öllum sviðum samfélagsins. Það bjó til þessa innviðaskuld. Hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, fór yfir það í ræðu í gær um stofnefnahagsreikningana hvernig innviðaskuldin hefði í rauninni orðið til. Hún passar saman miðað við þá stofnefnahagsútreikninga. Sú skuld er ógreidd eftir bankahrunið. Það er búið að borga bankahrunið með einhverjum bankaskatti og þrotabúunum o.s.frv. en það á eftir að borga innviðaskuldina — og hana á að borga með veggjöldum, með skattahækkunum. Er það sanngjarnt? Mér finnst ég spyrja mjög augljósrar spurningar.

Bankaskatturinn átti að borga fyrir samfélagstapið en hann er afnuminn þrátt fyrir að einmitt innviðaskuldin sé eftir. Bryddað hefur verið upp á mörgum öðrum lausnum í þessum umræðum. Það kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, að því er mig minnir, að ekki virtist hafa gengið eftir með t.d. eignasölu eða að losa um aðrar eignir ríkisins, þá Isavia eða bankanna, t.d. Íslandsbanka. Þar af leiðandi þarf að finna einhverjar aðrar fjármögnunarleiðir og veggjöld urðu fyrir valinu.

En ef stefnan er enn að fara í eignasölu, hvað gerist þá þegar Íslandsbanki er seldur? Verður andvirðið notað til að borga niður veggjaldalánin og veggjöldin afnumin strax? Það lítur ekki út fyrir það. Það væri lausn, það gæti jafnvel gerst áður en byrjað yrði að taka veggjöld af því að það á ekki að byrja að taka þau fyrr en að framkvæmdatíma loknum. Það yrði væntanlega ekki fyrr en eftir að þessu kjörtímabili yrði lokið. Ef áform ríkisstjórnarinnar eru að klára einhverja eignasölu á þessu kjörtímabili ætti það að nást áður en það þarf að taka veggjöld.

Einhvers konar svoleiðis hugmynd gæti komið í staðinn fyrir þessa veggjaldahugmynd. Við eigum eftir að sjá hvernig það þróast í fjármálaáætlun og í frumvarpinu sem boðað er hérna.

Þrátt fyrir allt er í áliti meiri hlutans farið mjög nákvæmlega yfir hvaða hugmyndir samgönguráðherra á að leggja til grundvallar því frumvarpi sem kemur fram seinna í vor. Það er ekki sagt bara: Alþingi vill. Ég hef ekki heyrt neinn vera á móti því. Það þarf nauðsynlega að fara í þær framkvæmdir sem liggja undir.

Það eru ekki bara gefin tilmæli til ráðherra um að fjármagna vinsamlegast þessar framkvæmdir frá Alþingi, heldur er sagt: Fjármagnaðu þessar framkvæmdir á tiltekinn hátt: með skattahækkunum, með veggjöldum sem leggjast alveg klárlega þyngst á suðvesturhornið, á þá sem fara í og úr vinnu til og frá höfuðborgarsvæðinu; ekki bara í vinnu til höfuðborgarsvæðisins heldur líka út frá því.

Vissulega dreifist það á einhvern hátt til allra landsmanna sem sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins en hlutfallslega dreifist það mest á íbúa suðvesturhornsins.

Til viðbótar við það er síðan áætlun um niðurgreidd flugfargjöld og þá náttúrlega fá þeir aðilar niðurgreidd flugfargjöld til að fljúga yfir vegtolla og sleppa þá í rauninni við hvort tveggja.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á störf nefndarinnar. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur að sjálfsögðu smááhrif á gang mála hvað samgönguáætlun varðar og nýjustu hreyfingar í þeirri nefnd voru að ný stjórn var kosin yfir umhverfis- og samgöngunefnd. Það var ákveðinn sigur fyrir #metoo-hreyfinguna þar sem geranda var vikið úr trúnaðarstarfi fyrir Alþingi. Að öðru leyti voru þar ákveðin vandkvæði en a.m.k. fékkst einn punktur fyrir #metoo sem ég fagna.