149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér kem ég í annað sinn við síðari umr. um samgönguáætlun. Síðustu daga hefur farið fram málefnaleg og gagnleg umræða um fyrirliggjandi samgönguáætlun þar sem forgangsraðað er miðað við markmið sem virðist ríkja sátt um. Áætlunin er fullfjármögnuð. Verið er að vinna að og fara í fjölda mikilvægra verkefna en þótt nú sé verið að setja meira fjármagn í samgöngur en nokkurn tíma áður bar gestum nefndarinnar saman um að það væri ekki nóg. Skuldin við samgöngukerfið sem safnast hefur upp síðasta áratug er of stór.

Það segir mér að ef við eigum að komast á ásættanlegan stað varðandi öryggi, umhverfismál, greiðar samgöngur og tengingu byggða verðum við að finna leiðir til að flýta framkvæmdum á næstu árum. Það þýðir að skoða þarf aðrar fjármögnunarleiðir en þær sem nú eru fyrir hendi.

Afgreiðsla meiri hluta nefndarinnar í nefndaráliti og breytingartillögum felst í að lagðar eru fram minni háttar breytingartillögur sem hafa fyrst og fremst áhrif á framkvæmdir árin 2019 og 2020 og leiða af breytingum sem hafa orðið á framvindu verka í umsjá Vegagerðarinnar. Markmiðið er þó að komast hjá því að seinka verklokum í fimm ára áætlun en af þessum tilfærslum leiðir einhverjar breytingar á síðari tímabilum sem stefnt er að að gangi til baka eftir útfærslu á flýtifjármögnun í vegakerfinu.

Hér er því ekki verið að umturna þeirri áætlun sem lögð var fram í haust.

Í nefndaráliti er, auk þessara breytinga, fjallað um notendagjöld í vegakerfinu töluvert meira en gert er í áætluninni eins og hún var lögð fram. Þá eru lagðar fram tillögur um fimm viðbótarmarkmið við áætlunina. Ein af þeim er um hagkvæmar samgöngur og hljóðar svo:

„Unnið verði að útfærslu nýrra fjármögnunarleiða og nauðsynlegri frumvarpsgerð með það að markmiði að flýta framkvæmdum á áætluninni og skapa fjárhagslegt rými fyrir nýjar framkvæmdir.“

Önnur markmið sem lögð eru fram lúta að efni sem ég ræddi í minni fyrri ræðu en það er útfærsla á kerfisbreytingu til að bæta umsjón, viðhald og uppbyggingu flugvallakerfisins í landinu. Tvö af viðbótarmarkmiðunum lúta að því. Þá er markmið varðandi uppbyggingu almenningssamgangna á landsbyggð og höfuðborgarsvæði sem og þá vinnu sem nú stendur yfir við mótun framtíðarsýnar á því sviði. Eins er markmið sem lýtur að skipulags- og samgangnaverkefninu borgarlínu. Eins og fram er komið stendur yfir umfangsmikið tímamótasamráð ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi framtíðaruppbyggingu samgangna þar. Tillagan um viðbótarmarkmið lýtur að því að áfram verði unnið að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna þar til ársins 2033.

Ég ætla aðeins að koma að atriðum sem ég náði ekki að ræða hér í fyrradag. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Nú hefur meiri hlutinn lagt fram tillögu um að útfært verði nýtt fyrirkomulag sem hefur verið kallað skoska leiðin og að það taki gildi í ársbyrjun 2020. Við útfærsluna þarf að taka tillit til umhverfisáhrifa og jafnvægis á milli samgöngumáta í almenningssamgöngum. Þessi tillaga byggir á tillögum starfshóps ráðherra um eflingu innanlandsflugsins. Ég legg sérstaka áherslu á að við nánari útfærslu á skosku leiðinni verði ekki settar stífar takmarkanir á tilgang ferða eða flækjustig vottorða aukið.

Sjóvarnir og hafnir eru mikilvæg verkefni sem ekki fer alltaf mikið fyrir í umræðunni. Hafnir eru undirstaða atvinnulífs og verðmætasköpunar í einstökum byggðarlögum og samfélaginu í heild og þar standa stöðugt yfir nýframkvæmdir og viðhald í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þó eru nokkrar hafnir í landinu sem ekki njóta ríkisstuðnings.

Áhersla er á að rafvæðingu helstu hafna landsins verði flýtt, bæði með tilliti til umhverfis og efnahagsmála. Í ljósi þess er rafvæðing nýs Herjólfs sjálfsögð og nauðsynleg.

Þá langar mig að nefna hér að ástæða væri til að hvetja sérstaklega til raftengingar uppsjávarflotans en það er efni í aðra og lengri umræðu.

Ég sný mér aftur að vegakerfinu. Í samgönguáætluninni eru mikilvæg verkefni fullfjármögnuð sem er lykilatriði í áætlanagerð eins og þessari en ég tel mikil tækifæri felast í annars konar fjármögnun og líka í hugmyndum um veggjöld. Með þeim má auka og flýta samgönguframkvæmdum til hagsbóta fyrir samfélagið allt en þau útiloka ekki aðrar leiðir til að afla viðbótarfjármagns til samgönguframkvæmda. Verði farið í lántöku er mikilvægt að gjaldtaka og lántaka verði á forræði hins opinbera. Vegagerðin hefði eftir sem áður umsjón með framkvæmdum í vegakerfinu og þær yrðu hluti af samgönguáætlun.

Í nefndaráliti eru sérstaklega ræddar þrjár gjaldtökuleiðir í þeim tilgangi að flýta framkvæmdum og auka öryggi. Ein af þeim er gjaldtaka á þremur stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu og hún hefur fengið langmesta umfjöllun hér við umræðuna. Önnur leið er að ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir verði fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun, þ.e. að hluta með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem verði greidd upp með gjaldtöku. Dæmi um framkvæmdir sem fallið gætu í þennan flokk eru hringvegur um Hornafjarðarfljót og Axarvegur.

Eins hlýtur framtíðaruppbygging jarðganga að geta komið þarna til greina og í þriðja lagi er fjallað um innheimtu veggjalda í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu til að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga en um leið verði komið á nýrri jarðgangaáætlun, sem væri hluti af samgönguáætlun, með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falli undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.

Þessar leiðir allar þarfnast nánari útfærslu og greiningar með tilliti til gagnsæis og jafnræðis.

Með fjölbreyttari fjármögnunarmöguleikum verður til svigrúm til að flýta öðrum samgöngubótum í samræmi við markmið um forgangsröðun og samninga milli ríkisins og sveitarfélaga.

Samkvæmt lögum um samgönguáætlun skal leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á a.m.k. þriggja ára fresti. Mér finnst augljóst að styttri tími þarf að líða þar til næst verður lögð fram samgönguáætlun vegna þess sem hefur verið rakið hér að framan, einkum þeirra fimm markmiða sem meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um að verði útfærð nánar sem lúta að greiðari samgöngum, öryggi í samgöngum, hagkvæmni og byggðaþróun.

Að lokum vil ég þakka samstarfið í nefndinni. Ég hef aldrei tekið þátt í að vinna mál hér á Alþingi sem eins miklum tíma hefur verið varið í og jafn mikill fjöldi gesta komið að því að ræða. Yfir marga þætti hefur verið farið oftar en einu sinni. Ég þakka samstarfið í nefndinni og hef trú á því að hér séum við að horfa fram á miklar og jákvæðar breytingar á samgöngumálum í landinu á næstu árum. Útfærsla þessara markmiða mun ekki að gerast einn, tveir og þrír, útfærslan tekur sinn tíma og svo tekur aftur tíma að koma öllu í framkvæmd. Til þess þurfum við að ætla okkur nægjanlegt svigrúm.

En breytingar eru fram undan. Áfram veginn!