149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun til næstu fimm ára. Undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar skrifaði ég með ákveðnum fyrirvara sem ég mun gera grein fyrir síðar í ræðu minni.

Samgöngumálin brenna svo sannarlega á landsmönnum, enda öllum ljóst að vegakerfið í landinu þarfnast gagngerra endurbóta og þörfin fyrir nýframkvæmdir er afar brýn. Eins og allir vita hefur álagið á vegakerfið aukist mikið undanfarin ár, bæði með fordæmalausri aukningu fjölda ferðamanna og sívaxandi atvinnustarfsemi. Vegakerfið hefur þjáðst af viðhaldsleysi um langt árabil og samhliða stórauknu álagi hefur til langs tíma verið dregið úr framkvæmdum eftir hrun. Það er því löngu kominn tími til aðgerða, til að láta hendur standa fram úr ermum. Að ætla vegfarendum, jafnvel næstu 15 árin, að aka eftir mjóum vegum án aðskilinna akstursstefna inn og út úr borginni, þar sem umferðin er orðin eins mikil og raun ber vitni, er hreinlega ekki viðunandi.

Ég tel rétt að víkja nokkrum orðum í upphafi að almennu vinnulagi í fastanefndum þingsins. Því er þannig háttað að flest mál koma fullburða úr ráðuneytunum þar sem þau hafa verið samin. Nefndir Alþingis fara síðan höndum um málin. Stundum eru gerðar viðbætur eða lagfæringar og síðan fer lagafrumvarpið eða tillagan í gegnum þingið, í flestum tilfellum lítið breytt. Þannig er staðan, frumvörp og tillögur koma í raun frá framkvæmdarvaldinu, ráðherrunum og embættismönnum í ráðuneytunum. Á Alþingi fer þannig fram nokkurs konar yfirlestur á afurðum ráðuneytanna. Um þetta hef ég áður rætt og fyrst í jómfrúrræðu minni á þingi í desember 2017. Ég tel að efla beri frumkvæði Alþingis við lagasetningu og að löggjafarvaldið þurfi að hafa meiri burði til að koma með skilvirkari hætti að gerð lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna. Í því ljósi verð ég að lýsa ánægju minni með það verklag sem umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur viðhaft í þessu tiltekna máli. Vonandi eru þau vinnubrögð vísir að því sem koma skal, nefnilega að nefndir Alþingis komi á virkan og afgerandi hátt að samningu laga frá upphafi og móti þá stefnu sem þar komi fram. Þannig á það að vera og þess vegna fagna ég sérstaklega slíkum vinnubrögðum.

Herra forseti. Við þær aðstæður sem ég hef farið yfir stóð nefndin frammi fyrir því að láta vegakerfið reka á reiðanum áfram og sætta sig við að ýmsar brýnar samgönguframkvæmdir yrðu látnar bíða um ófyrirséða tíð, til lengri eða skemmri tíma, svo sem að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar upp að flugstöð, Vesturlandsveg um Kjalarnes og upp í Borgarnes, aðskilja akstursstefnur alla leið á Selfoss með nýrri Ölfusárbrú og margar fleiri brýnar framkvæmdir mætti nefna. Einnig sáum við fram á að jarðgangagerð myndi stöðvast, kannski næsta áratuginn. Það var ekki sú sýn sem kallað hefur verið eftir. Það að vegfarendur yrðu látnir bíða jafnvel 15 ár eftir að gengið yrði í þau brýnu verkefni var hreinlega ekki inni í myndinni. Því skrifaði ég undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar með fyrirvara um nokkur atriði sem ég vil fara yfir.

Fyrirvarinn er svohljóðandi:

„Ég styð nefndarálit þetta í megindráttum með fyrirvara. Ég tel nauðsynlegt að grípa verði til raunhæfra aðgerða til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum. Þannig tel ég nauðsynlegt að kveðið verði skýrt á um fjárhæð veggjaldanna og útfærslu afsláttarkjara og að leggja þurfi sérstaka áherslu á lækkun gjalda á bifreiðaeigendur samhliða upptöku veggjalda. Þá tel ég að nota eigi fjármagn sem fyrirhugað er að renni í væntanlegan þjóðarsjóð að hluta til til að kosta framkvæmdir í samgönguáætlun, og nefni þar sem dæmi Sundabraut.

Ég tel einnig að forðast beri margfeldisinnheimtu veggjalda af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Ég tel mikilvægt að við endurskoðun almennu gjaldanna, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, verði tryggt að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram ábata af greiðara og öruggara umferðarflæði.“

Herra forseti. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er með áliti sínu í rauninni að beina þeim tilmælum til ráðherra í ítarlegu máli að útfæra nánar og á tiltekinn hátt (Forseti hringir.) í stórum dráttum þá stefnu sem nefndin hefur mótað, þ.e. að flýta framkvæmdum í samgönguáætlun (Forseti hringir.) með því að leggja til að þau verði fjármögnuð (Forseti hringir.) með veggjöldum. Ég get tekið undir með meiri hlutanum, (Forseti hringir.) að unnið verði markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins (Forseti hringir.) hratt og kostur (Forseti hringir.) er með tilliti til (Forseti hringir.) hagkvæmnimarkmiða í loftslagsmálum, (Forseti hringir.) jafnræðis- og öryggissjónarmiða, (Forseti hringir.) eins og kemur fram í (Forseti hringir.) fyrirvara mínum, (Forseti hringir.) með því að útfærsla (Forseti hringir.) veggjalda taki mið af því (Forseti hringir.) sem þar er nefnt. (Forseti hringir.)

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég heyri í bjöllunni. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að taka til máls undir liðnum fundarstjórn forseta.