149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þó að samkomulag hafi náðst milli fulltrúa 61 þingmanns á vettvangi þingflokksformanna er ég ekki þar á meðal og hlýt því að upplýsa herra forseta um að í þessu efni gilda þingskapalög, nefnilega að ég var hér í minni annarri ræðu sem er samkvæmt 95. gr. þingskapalaga tíu mínútur. Ég á reyndar að auki inni fimm mínútur í þriðju ræðu, svo ég minni hæstv. forseta á að það eru lög í gildi í landinu og þeim verður ekki vikið til hliðar sisvona af meiri hluta þingsins á einum þingflokksformannafundi án aðildar allra þingmanna, jafnvel þó að sá meiri hluti sé stór. Slíkt samkomulag upphefur ekki rétt þingmanns samkvæmt þingskapalögum.