149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[13:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir þá viðleitni hans að ætla að skoða þingskapalögin. Þau eru alveg skýr. Við síðari umr. um þingsályktunartillögu hefur hver þingmaður rétt á tíu mínútna ræðutíma. Það er alveg skýrt. Mér er úthlutað tíma og það er bjallað á mig eftir fimm mínútur.

Ég vil líka benda hæstv. forseta á að ég á rétt á að flytja aðra ræðu undir þessum lið í fimm mínútur, (Gripið fram í.) og fundur þingflokksformanna upphefur ekki þessi skýru ákvæði í þingskapalögum. Það er alveg sama hversu stór meiri hluti ákveður slíkt, hvort hann er 61 þingmaður eða 62, það er nóg að það sé einn sem hefur þennan rétt.