149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

tilkynning.

[13:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Í gærkvöldi fékk ég símtal frá starfsmanni þingfundaskrifstofu þar sem mér var tjáð að þingflokksformenn væru ásamt forseta að ræða eitthvert samkomulag um að takmarka ræðutímann og að einn skyldi tala á morgun, þ.e. í dag, sem talsmaður. Ég hafði ekkert heyrt af þessu og sagði því við starfsmann Alþingis að mér þætti þetta skrýtið því að hvorki forseti né aðrir þingflokksformenn hefðu rætt þetta við mig. Þar með lauk því samtali.

Ég kom hingað í þinghúsið. Ég lét að sjálfsögðu setja mitt fólk á mælendaskrá því að það er ekki hægt að gera svona samkomulag án þess að allir séu með. Þá var ég kallaður inn á teppið hjá forseta þar sem farið var yfir að klára þyrfti umræðuna og ég spurður hvort við værum til í það. Ég tók mér umhugsunarfrest og síðan tókum við okkur af mælendaskrá í ljósi þess að þarna ætti að vera eitthvert samkomulag.

Það var aldrei haldinn neinn fundur meðal þingflokksformanna. Það var aldrei skýrt fyrir þingflokksformönnum hvað í þessu nákvæmlega fælist, þ.e. að einhverjir ákveðnir þingmenn fengju ekki þann ræðutíma sem þeim kannski bæri í þessu öllu saman. Það er rétt að í 86. gr. er gert ráð fyrir að forseti geti, ef það er komið samkomulag, (Forseti hringir.) ákveðið ræðutíma þeirra sem eru utan flokka. Það er ekki hægt að búa við að þessi vinnubrögð verði framar stunduð, að það sé hlaupið um á göngunum og reynt að búa til eitthvert samkomulag milli einhvers hóps og svo öðrum stillt upp við vegg, eins og ég held að megi segja að hafi verið gert í gærkvöldi. Mér finnst mjög skynsamlegt að hér verði bara ákveðið að þessi ágæti þingmaður fái þann ræðutíma sem hann þarf.